Upphaf búskapar að svæðinu má rekja aftur til ársins 1938, þegar Sigríður Möller reisti íbúðar- og skepnuhús í landi Eyrarlands. Bærinn var nefndur Jaðar.
Árið 1964 keypti bæjarstjórn Akureyrar jörðina og tveimur árum síðar hófust félagar Golfklúbbs Akureyrar handa við að breyta túnum og bithögum í golfvöll sem var hannaður af Magnúsi Guðmundssyni, fimmföldum Íslandsmeistara í golfi og var völlurinn vígður var árið 1970. Breytingar og úrbætur hafa átt sér stað í gegnum tíðina og uppúr 1980 var völlurinn stækkaður úr 9 holum í 18 holu völl en seinni níu holurnar hannaði Magnús Guðmundsson ásamt Gunnari Þórðarsyni. Um 1990 var völlurinn endurhannaður af HJ teiknistofu.
Árið 2004 hófust framkvæmdir við breytingar á Jaðarsvelli, sem hannaðar hafa verið af Edwin Rögnvaldssyni golfvallarhönnuði, og standa þessar framkvæmdir enn. Flatir og teigar hafa verið endurgerðir, auk ýmissa annara breytinga sem allar miða að því að Jaðarsvöllur verði áfram í fremstu röð meðal íslenskra golfvalla.
Ef þú vilt koma á framfæri ábendingum varðandi eitthvað sem snertir Jaðarsvöll, hvort sem það er almenn umhirða eða stærri framkvæmdir, hvetjum við þig til að senda póst á netfangið gagolf@gagolf.is.