140 keppendur á Arctic Open golfmótinu á Akureyri

Góð þátttaka í Arctic Open.
Arctic Open golfmótið verður haldið á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 25. - 27. júní nk. Arctic Open er alþjóðlegt golfmót sem hefur verið haldið frá árinu 1986 og hafa á fjórða þúsund innlendir og erlendir gestir látið drauminn rætast og tekið þátt í mótinu. Keppendur eru sammála um að það sé einstök upplifun að spila golf í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil svo nærri heimskautsbaugi.
 

Flugfélag Íslands er aðal samstarfsaðili G.A. um framkvæmd mótsins. Um 140 þátttakendur eru skráðir til leiks í ár. Verðlaun eru frá Nike umboðinu, NTC verslununum og heildverslun Rolf Johansen auk þess sem allir þátttakendur fá sérstaka þátttökugjöf frá Nike.  Mótið hefst á morgun fimmtudag með glæsilegri setningarathöfn þar sem boðið verður upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum.  Sérstök áhersla er lögð á að kynna afurðir frá Eyjafjarðarsvæðinu í samstarfi við samtökin Matur úr héraði. Fyrsti ráshópur er ræstur kl. 16 á fimmtudag og eru þá leiknar 18 holur og frá kl. 16 á föstudag eru leiknar aðrar 18 holur fram á rauða nótt. Leikið er eftir Stableford punktakerfi með og án forgjafar auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir besta árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Samhliða leik er spiluð liðakeppni. Fjórir eru saman í liði og valið er í liðin af handahófi.

Lokahóf Arctic Open á laugardagskvöld er sannkölluð stórveisla þar sem verðlaunin eru afhent og boðið upp á skemmtiatriði. Í lokahófinu mun Friðrik V. matreiðslu-meistari bjóða veislumat unninn úr hráefnum frá sjávarútvegs- og matvæla-fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu.  Friðrik V. er einn af fremstu matreiðslumönnum landsins og munu þeir réttir sem hann ætlar að bjóða í lokahófinu koma skemmtilega á óvart.

Eins og undanfarin ár verður efnt til fjáröflunarleiks á 18. holu vallarins og er tilgangurinn að safna fé til styrktar góðu málefni. Að þessu sinni rennur féð til styrktar barna- og unglingastarfi Golfklúbbs Akureyrar. Jaðarsvöllur kom mjög vel undan vetri og verður í mjög góðu standi þegar Arctic Open fer fram. Þær stórhuga endurbætur og framkvæmdir sem nú standa yfir á Jaðarsvelli munu gerbreyta vellinum og gera hann að einum besta golfvelli á landinu. Þær munu einnig opna nýja og stórkostlega möguleika fyrir Golfklúbbinn til að markaðssetja Arctic Open mótið og aðrar uppákomur sem hingað laða kylfinga, jafn innlenda sem erlenda.