Kæru GA félagar
Rekstur ársins gekk vel, mikil ásókn var í rástíma og GA félagar juku annað árið í röð sínum hringjum á Jaðarsvelli. Í sumar voru 24.328 hringir spilaðir af GA félögum sem er aukning um rúmlega 1.000 hringi frá því í fyrra. Alls voru spilaðir 30.146 hringir á Jaðarsvelli sem er það mesta frá upphafi.
Mótahald ársins gekk frábærlega og helst ber að nefna okkar fjögur árlegu stórmót, Arctic Open, Icewear bombuna, Hjóna- og parakeppni Icelandair og GA og Höldur/Askja Open. Hvert þeirra með yfir 200 þátttakendur sem er frábært ásamt fjöldan allann af öðrum mótum hér í sumar.
Tekjur námu 265 m.kr. samanborið við 246,5 m.kr árið áður sem er 7,5% hækkun á heildartekjum. Rekstrargjöld voru alls 243,6 m.kr. samanborið við 229 m.kr. árið áður en þau hækkuðu um 6,4%.
Ebitda af rekstri var 39,2 m.kr. eða hækkun upp á 26,5%. Hagnaður af rekstri GA eftir fjármagnsliði er því 18,8 m.kr.
„Reksturinn gekk vel á árinu og hefur aldrei verið jafn mikil fjölgun á meðlimum og var í ár. Völlurinn var áfram afar eftirsóttur og enn eitt metárið í spiluðum hringjum. Golfmótin okkar eru ótrúlega vel sótt svo biðlistar hafa myndast."
„Það er óhætt að segja að aðstaðan hafi tekið stakkaskiptum hér í ár, en bygging inniaðstöðunnar hefur gengið frábærlega. Framkvæmdir við grunninn hófust 28.sept 2023 eða fyrir rétt rúmu ári. Nú í dag, rétt rúmlega 12 mánuðum síðar eru aðeins nokkrir dagar í að við tökum golfhermana okkar og púttaðstöðu í notkun. Áætlað var að taka aðstöðuna í notkun í desember 2024 og er það að raungerast, eins er gaman að segja frá því að kostnaður er undir kostnaðaraáætlun. Þó er mikilvægt að nefna að við hjá GA stöndum straum af öllu innvolsi og allur búnaður til golfiðkunar innandyra er kostaður af GA og hleypur á tugum milljóna. Eins og fram hefur komið er GA framkvæmdaraðili og höfum við átt í frábæru samstarfi við alla þá aðila sem að þessari byggingu hafa komið og berum við þeim bestu þakkir. Það er ljóst að án aðkomu þessara aðila hafi útkoman verið allt önnur. Mikilvægt er að nefna að starfsmenn GA og sjálfboðaliðar hafa unnið dag og nótt við verkið allt frá byrjun og er það einnig ómetanlegt."
„Framkvæmdir á byggingunni tóku sinn skerf á árinu en okkur tókst vel til með að láta það ekki trufla reksturinn og golfvöllinn sjálfan. Árið gekk því vel rekstrarlega og niðurstaðan skv. áætlun og gott betur. Áfram mun sá ágóði skila sér í bættri þjónustu við félagsmenn, aukinni umhirðu og framkvæmda sem og vélakaupum. Starfsemi GA vex og dafnar því vel með metnaðarsömum en hagsýnum áformum." - Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdastjóri GA
Við minnum GA félaga á aðalfund okkar sem verður haldinn í Golfskálanum á Jaðri laugardaginn 14.des kl 14:00
Fundurinn verður pappírslaus og hvetjum við fundargesti til að kynna sér gögnin hér:
Ársreikningur
Skýrsla stjórnar