15. desember síðastliðinn var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar fyrir rekstrarárið 2023. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf en það var hann Jón Steindór Árnason sem var kosinn fundarstjóri og Skúli Eyjólfsson var kosinn ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður GA, hóf fundinn á því að fara með skýrslu formanns áður en Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, fór yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir árið 2023 og var hann samþykktur af fundargestum.
Hagnaður ársins nam 12.195.043kr. eftir fjármagnsliði samanborið við 13.977.911 kr. árið áður. Rekstartekjur voru rúmlega 246 milljónir og rekstrargjöld 229 milljónir með afskriftum upp á tæplega 13,5 milljónir og lækkuðu skuldir klúbbsins töluvert á milli ára. EBITDA rekstrarársins var 31 milljón sem er það sama og árið áður.
Kosið var til stjórnar GA en engin mótframboð til stjórnar bárust kosningarnefnd fyrir fund og voru þeir Jón Steindór og Skúli kosnir áfram í stjórn og Finnur Bessi og Vigfús Ingi halda áfram sem varamenn í stjórn. Þá var Bjarni Þórhallsson endurkjörin formaður klúbbsins.
Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2024 sem var samþykkt á fundinum. Hér má sjá verðskrá GA fyrir árið 2024. Eftirfarandi hlutir eru innifaldir í árgjaldi GA:
Steindór fór yfir rekstraráætlun fyrir árið 2024 en í henni eru tekjur áætlaðar 263,5 milljónir samanborið við tæpar 246 á nýliðnu rekstrarári og gjöld áætluð 245,8 milljónir samanborið við rúmlega 229 árið 2023.
Ólafur Auðunn Gylfason, golfkennari GA, veitti Háttvísisbikar GA og tilkynnti hverjir væru kven- og karlkylfingur GA ásamt kylfingi ársins.
Ragnar Orri Jónsson fær háttvísisbikar GA en hann hefur lagt mikið á sig undanfarin ár til að bæta golfleik sinn. Ragnar er alltaf boðinn og búinn til að aðstoða klúbbinn sinn og er öðrum yngri kylfingum mikil fyrirmynd. Hann er frábært dæmi um kylfing sem er sannur félagsmaður GA og átti hann frábært golfsumar þar sem hann keppti í fyrsta sinn í meistaraflokki í Akureyrarmótinu og endaði þar í 4. sæti ásamt því að spila frábært golf í Íslandsmóti golfklúbba 15-16 ára þar sem hann sigraði alla tvímenningsleiki sína eða fimm talsins.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kvenkylfingur GA 2023. Andrea var áfram valin í landsliðshóp GSÍ núna í haust og hefur verið að spila stöðugt golf með sýnu liði í Elon háskólanum. Hún endaði í 3. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni þar sem hún sigraði meðal annars þær Ragnhildi Kristinsdóttir og Guðrúnu Brá. Þá lenti Andrea í 7. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og í 6. sæti á stigalista GSÍ eftir sumarið.
Veigar Heiðarsson er kylfingur GA 2023 en hann átti frábært sumar í golfinu. Veigar kórónaði sumarið með því að verða Íslandsmeistari í flokki 17-21 ára í Vestmannaeyjum eftir frábært einvígi við nýkrýndan Íslandsmeistara í golfi, Loga Sigurðsson. Veigar varð einnig stigameistari í flokki 17-21 árs, endaði í 13. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og spilaði stórt hlutverk í karlasveit GA sem endaði í 2. sæti á Íslandsmóti golfklúbba og í sveit GA 17-21 árs sem endaði einnig í 2. sæti. Þá sigraði Veigar á Global Junior móti í Mosfellsbæ og vann sér inn þátttöku í móti í Portúgal sem hann keppti í nú á dögunum og endaði þar í 2. sæti.
Þá veitti Steindór tveimur kylfingum GA afreksmerki á fundinum en það voru þau Bryndís Eva Ágústsdóttir sem hlýtur afreksmerki fyrir að verða Íslandsmeistari í flokki 14 ára og yngri í sumar og Heiðar Davíð Bragason sem hlýtur afreksmerki GA fyrir að verða Akureyrarmeistari í golfi.
Framkvæmdarstjóri fór yfir verkefni sem framundan eru en þar ber helst að nefna viðbygginguna sem mun hýsa nýju inniaðstöðuna okkar, forgreen og stækkun flatar á 11. holu, breytingu á turnunum, aukningu á slátturróbótum og frekari merkingum á vellinum.
Við þökkum félagsmönnum GA innilega fyrir sumarið og hlökkum mikið til næsta sumars með þeim.