Aðalfundur GA fór fram í gær, fimmtudaginn 27. nóvember, og mættu GA félagar vel á fundinn.
Fór fundurinn vel fram og almennt var talsverð ánægja með nýliðið rekstrarár.
Stjórn GA helst óbreytt á milli ára og verður Sigmundur Ófeigsson áfram formaður klúbbsins. Stjórn GA lagði fram breytingar á lögum GA sem voru samþykktar og er hægt að skoða ný lög klúbbsins með því að smella hér.
Líkt og venja er þá voru ýmsar viðurkenningar veittar á fundinum.
Víðir Steinar Tómasson var krýndur holumeistari GA 2014.
Háttvísisbikar GSÍ fór að þessu sinni til hennar Andreu Ýrar Ásmundsdóttur. Andrea hefur staðið sig virkilega vel á þessu ári. Hún er gríðarlega dugleg og samviskusöm við æfingar og leggur hart að sér til að ná árangri. Hún er góð fyrirmynd og er Golfklúbbi Akureyrar ávallt til mikils sóma hvort sem er við keppni eða við æfingar.
Andrea náði frábærum árangri í sumar. Hún varð Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í höggleik sem og í sveitakeppni GSÍ þar sem hún spilaði með sameiginlegri sveit GA og Dalvíkur. Einnig spilaði hún stórt hlutverk, þrátt fyrir ungan aldur, í sveitakeppni í 2. deild kvenna með sveit GA. Hún varð svo í þriðja sæti á stigalista Íslandsbankamótaraðarinnar í sínum aldursflokki.
Kylfingur ársins 2014 er Tumi Hrafn Kúld. Tumi hefur líkt og Andrea átt virkilega gott ár. Hann hefur staðið sig vel og lagt hart að sér við æfingar og hefur uppskorið eftir því. Tumi varð Íslandsmeistari í flokki 17 – 18 ára í holukeppni í sumar og hafnaði í þriðja sæti á stigalista GSÍ í sínum aldursflokki. Tumi kemur ávallt vel fram og getum við GA félagar verið virkilega stoltir af honum og væntum við mikils af honum á næstu árum.
Skýrsla stjórnar og ársreikningar eru komnir inn á heimasíðuna okkar, sjá hér.