Þann 14. desember síðastliðinn var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar fyrir rekstrarárið 2024 en mjög vel var mætt á fundinn og voru gestir tæplega 100 á fundinum og vígsluathöfninni. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf og eftir fundinn var nýja inniaðstaðan okkar á Jaðri formlega opnuð en það var Halldór M. Rafnsson, heiðursfélagi GA, ásamt Huldu Bjarnadóttur, forseta GSÍ, sem klipptu á rauða borðann í inniaðstöðuna áður en gestir gátu fengið að sjá aðstöðuna og gæddu sér síðan á snittum og drykkjum að fundi loknum.
Á aðalfundinum var það hann Jón Steindór Árnason sem kosinn var fundarstjóri og Skúli Eyjólfsson ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður GA, hóf fundinn á því að fara með skýrslu formanns áður en Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, fór yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir árið 2024 og var hann samþykktur af fundargestum.
Hagnaður ársins nam 18.758.503 kr. eftir fjármagnsliði samanborið við 12.195.043 kr. árið áður. Rekstartekjur voru rúmlega 265 milljónir og rekstrargjöld 243,5 milljónir með afskriftum upp á rúmlega 17,6 milljónir. EBITDA rekstrarársins var 39,2 milljón sem er hækkun upp á 26,5%
Kosið var til stjórnar GA en engin mótframboð voru til stjórnar og voru þær Guðlaug María Óskarsdóttir og Eygló Birgisdóttir kosnar áfram í stjórn og Finnur Bessi og Vigfús Ingi halda áfram sem varamenn í stjórn. Þá var Bjarni Þórhallsson endurkjörin formaður klúbbsins.
Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2025 sem var samþykkt á fundinum. Hér má sjá verðskrá GA fyrir árið 2025. Eftirfarandi hlutir eru innifaldir í árgjaldi GA:
Steindór fór yfir rekstraráætlun fyrir árið 2025 en í henni eru tekjur áætlaðar 300 milljónir samanborið við rúmlega 265 á nýliðnu rekstrarári og gjöld áætluð 275 milljónir samanborið við rúmlega 243 árið 2023.
Ólafur Auðunn Gylfason, golfkennari GA, veitti Háttvísisbikar GA og tilkynnti hverjir væru kven- og karlkylfingur GA ásamt kylfingi ársins.
Bryndís Eva Ágústsdóttir hlaut háttvísisbikar GA, Bryndís sinnir öllu sem viðkemur æfingum og keppni af miklum metnaði og samviskusemi. Hún er kurteis, sýnir öllum virðingu á vellinum, hlustar vel og er óhrædd við að spyrja spurninga. Hún er að öllu leiti til fyrirmyndar hvað varðar dugnað og að framfylgja því sem beðið er. Hún hefur orðið Íslandsmeistari í höggleik í sínum aldursflokki undanfarin tvö ár og var valin í sitt fyrsta landsliðsverkefni í sumar þegar hún fór á EM liða með u18 ára liði Íslands. Nú á haustmánuðum var hún valin í landsliðshóp GSÍ.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kvenkylfingur GA 2024. Andrea er á sínu lokaári hjá Elon háskólanum í Bandaríkjunum og hefur verið þar undanfarna fjóra vetur. Hún hafnaði í 10.sæti í Íslandsmótinu í höggleik í sumar og og komst í gegnum niðurskurð á Íslandsmótinu í holukeppni en féll úr í 16 manna úrslitum. Hún endaði í 8.sæti á stigalista GSÍ í kvennaflokki og varð Akureyrarmeistari í golfi. Andrea fór fyrir liði GA í 2. deild kvenna sem sigraði og keppir því með sveit GA í efstu deild á næsta ári. Hún endaði sumarið með +0,8 í forgjöf og er félagsmönnum og kylfingum GA góð fyrirmynd. Hún er kurteis, auðmjúk og sýnir þjálfurum, starfsfólki GA, kylfingum og golfvellinum mikla virðingu. Hún hefur um árabil sýnt mikinn metnað og dugnað og hefur verið mikill drifkraftur í kvennastarfi GA.
Veigar Heiðarsson er kylfingur GA 2024 en Veigar hefur verið í unglingalandsliðshóp GSÍ undanfarin ár og var núna í haust valinn í landsliðshóp karla fyrir 2025.Veigar tók þátt í sex af sjö GSÍ unglingamótum í sumar og sigraði fimm þeirra. Hann varð íslandsmeistari í höggleik þar sem hann sigraði með sjö högga mun, einnig varð hann íslandsmeistari í holukeppni og stigameistari. Hann hafnaði í 18.sæti í karlaflokki á íslandsmótinu í höggleik og tók þátt í 5 mótum erlendis á árinu þar sem hann endaði 14. sæti á German Boys og vann alla sína leiki með U18 liði Íslands í 1. deild á Evrópumóti landsliða. Hann spilaði á The Amateur sem er eitt tveggja sterkustu áhugmannamóta Evrópu í einstaklingskeppni og keppti einnig á British Boys þar sem hann endaði í 4. sæti í höggleiknum en tapaði í 64 manna úrslitum í holukeppni. Hann keppti með 18 ára sveit GA sem endaði í 2. sæti á Íslandsmóti golfklúbba og með karlasveit GA sem lenti í 4.sæti í 1. deild.Lægst fór Veigar í 494 sæti í sumar á heimslista áhugamanna og endaði sumarið með +3,6 í forgjöf. Hann leggur gríðarlega mikið á sig við æfingar og sleppir aldrei æfingum. Hann ber tilfinningarnar utan á sér og er mikill keppnismaður. Hann er okkar yngri kylfingum og öðrum meistaraflokkskylfingum mikil og góð fyrirmynd hvað dugnað og vilja varðar.
Við þökkum félagsmönnum GA innilega fyrir sumarið og hlökkum mikið til næsta sumars með þeim.