Jónas Valdimarsson, sem sendi inn athugasemd, lagði fram tillögu um hvernig hægt væri að nýta landið undir
íbúðabyggð. Um sé að ræða áhugavert svæði með góðri tengingu við gatnakerfi, regnvatns- og skólplagnir liggi
þegar um svæðið og við flestar aðrar veitur. Golfvöllurinn sé nú þegar með marga hektara ónotaða í suðurendanum.
Í bókun skipulagsnefndar segir: "Samkvæmt reynslutölum um fjölda iðkenda og framtíðarspám um þróun golfvallarins er nauðsynlegt
að stækka golfvöllinn þannig að hægt verði að fara í breytingar sem auka nýtingu hans vegna mikillar fjölgunar iðkenda á
síðustu misserum.
Ef svæðið yrði nýtt undir íbúðasvæði eins og lagt er til yrði hverfið illa tengt öðrum hverfum s.s. Lundahverfi m.t.t.
aðgengi að grunnskóla þar sem tengibrautin Miðhúsabraut myndi liggja þar á milli. Hætta væri á að börn freistuðust til
að fara yfir tengibrautina á óæskilegum stöðum. Bent skal á að framtíðaruppbygging íbúðabyggðar mun verða í
Naustahverfi og þörfin fyrir nýtt svæði undir íbúðabyggð því ekki fyrir hendi m.a. vegna núverandi efnahagsástands.
Tekið skal fram að ekki er hægt að stækka golfvöllinn til suðurs eða vesturs vegna núverandi aðstæðna en bent skal á að
umrætt viðbótarsvæði er afturkræft þar sem ekki er gert ráð fyrir að byggt verði á svæðinu."