Ágúst Jensson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri GA. Alls bárust 23 umsóknir um starfið. Ágúst hefur að undanförnu starfað sem yfirvallastjóri golfvalla Golfklúbbs Reykjavíkur, en hefur einnig verið vallarstjóri Korpúlfsstaðarvallar og unnið á Kings og Queens golfvöllunum á Gleneagles í Skotlandi.
Ágúst er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur auk þess lokið námi í golfvallafræðum frá Elmwood College í Skotlandi. Ásamt störfum sínum hjá GR hefur Ágúst sinnt þjálfun í yngri flokkum í körfuknattleik með hléum frá árinu 1997. Þá þjálfaði Ágúst meistaraflokk kvenna í körfuknattleik hjá Fjölni síðastliðinn vetur.
„Ég er virkilega spenntur fyrir þessu starfi og hlakka mikið til þess að takast á við nýjar og skemmtilegar áskoranir. Það er frábær aðstaða til golfiðkunar á Akureyri og það hefur verið vel staðið að málum þar undanfarin ár þannig að ég er að koma inn í gott og skemmtilegt umhverfi. Svo er mikil tilhlökkun innan fjölskyldunnar að flytja norður og setjast að á nýjum og skemmtilegum stað“
Eiginkona Ágústar er Dagbjört Víglundsdóttir og eiga þau tvær dætur. Dagbjört starfar á fjármálasviði Vífilfells og mun halda því starfi áfram eftir flutning til Akureyrar.
Stjórn GA býður Ágúst velkominn og væntir mikils af samstarfi við hann. Ágúst hefur störf þann 1. nóvember næstkomandi.