Árni S. Jónsson, heiðursmeðlimur Golfklúbbs Akureyrar, lést 28. júní síðastliðinn 81 árs að aldri.
Árni gekk í Golfklúbb Akureyrar í kringum árið 1950 og hefur var viðloðandi klúbbinn alla tíð, sem félagi, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og golfkennari.
Árni sat í stjórn GA frá 1967-1979, sem meðstjórnandi, ritari og varaformaður.
Hann gegndi starfi framkvæmdastjóra GA á árunum 1984-1989. Á þeim tíma urðu mikilvægar breytingar á starfi klúbbsins er snéri að þjálfun barna og unglinga, en á tímabilinu var ráðinn fyrsti golfkennarinn til GA sem sinnti starfinu í fullu starfi.
Árni varð Akureyrarmeistari í golfi 1975 og í öðru sæti oftar en hann kærir sig um að muna. Hann tók einnig þátt í fjölmörgum mótum um allt land og sigraði í mörgum þeirra. Þá átti Árni um tíma vallarmet á nokkrum golfvöllum á Norðurlandi.
Árið 1972 tók Árni að sér að þjálfa börn og unglinga Golfklúbbs Akureyrar og má segja að þá hafi orðið þáttaskil hjá klúbbnum því klúbburinn skipaði sér fljótt í fremstu röð golfklúbba á Íslandi. Árni starfaði sem golfkennari í tæp 40 ár og fylgdist vel með íslensku golfi til síðasta dags, en um helming þessa tíma starfaði hann fyrir GA. Undir hans stjórn varð til fjöldinn allur af Íslandsmeisturum og landsliðskylfingum.
Golfklúbbur Akureyrar syrgir fallinn félaga og vottar fjölskyldu og ástvinum hans dýpstu samúð.
Árni í góðum félagsskap