Afkomendur Karólínu Guðmundsdóttur og Frímanns Gunnlaugssonar hafa fært GA bekk til minningar um þau.
Bekknum var fundinn staður í trjálundinum við 18. flötina.
Af því tilefni er rétt að rifja upp nokkur atriði um hlut þeirra í sögu golfíþróttarinnar á Akureyri. Karólína og Frímann byrjuðu að leika golf fljótlega eftir að þau fluttu með fjölskyldu sína til Akureyrar haustið 1964. Þau voru þá rúmlega þrítug, Frímann hóf golfleik fljótlega en Karólína árið 1971.
Þau náðu fljótlega góðum tökum á íþróttinni og höfðu yndi af því leika golf æ síðan. Karólína varð fyrsti Akureyrarmeistari kvenna í golfi árið 1973. Hún varð aftur Akureyrarmeistari í golfi 1974 og í þriðja sinn árið 1978. Hún spilaði golf öll sumur þar til tveimur árum áður en hún lést í nóvember 2011.
Frímann spilaði golf sér til ánægju alla tíð en tími hans og orka fór í félagsmál í kringum golfið á Akureyri. Hann varð formaður GA árið 1967 og var það fram til 1970. Hann varð aftur formaður 1974 til 1976 en sat áfram í stjórn til 1978. Hann varð formaður á ný árið 1979 og sat til ársins 1982, lét þá af formennsku en sat áfram í stjórn til næsta árs. Hann varð síðan framkvæmdastjóri GSÍ árið 1985 og gegndi því starfi til dauðadags árið 2002.
Golfklúbbur Akureyrar þakkar þessa góðu gjöf. Margir kylfingar eiga eftir að tilla sér á bekkinn í framtíðinni og fara yfir skorið sitt og fylgjast með leik á 18. braut.