Besta inniaðstaða landsins til golfæfinga hjá GA

Nú um nýliðna helgi komu þeir Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari í golfi og atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson í heimsókn til okkar.

Haldnar voru æfingar í Golfhöllinni fyrir norðurlandaúrvalið auk þess sem okkar unglingum var boðið á æfingu.  Haldnir voru skemmtilegir og fróðlegir fyrirlestrar og tókst heimsóknin virkilega vel og gaman að fá þessa miklu snillinga í heimsókn til okkar.

Birgir og Úlfar voru báðir virkilega hrifnir af þeirri aðstöðu sem við höfum komið okkur upp hér í Golfhöllinni og grípum við hér í frétt af golf.is þar sem Úlfar segir:

" Aðstaða til æfinga yfir vetrartímann er einstaklega góð, bæði á Dalvík og Akureyri. Mér er óhætt að segja að inniaðstaða Akureyringa sé sú besta á landinu, en þeir notast við Trackman höggsjána, sem flestir atvinnumenn í stærstu mótaröðum notast við til að fá upplýsingar um boltaflugið, sveifluferil ofl.  Þegar veturinn er þetta langur eins og við þekkjum þá skiptir miklu máli að aðstaða sé góð til að æfa stutta spilið og einnig geta notast við nýjustu tækni til að gera sveifluæfingar markvissari og skemmtilegri".

Ekki amalegt að fá svona viðurkenningu frá landsliðsþjálfaranum.

Þökkum við þeim kærlega fyrir komuna, það er okkur mikils virði að fá þessa frábæru kylfinga og fyrirmyndir til okkar og vonumst við til þess að sjá þá hér fljótlega aftur.