Björgvin Þorsteinsson, heiðursfélagi í GA og margfaldur Íslandsmeistari í golfi, lést aðfaranótt fimmtudags, 68 ára að aldri eftir langa baráttu við krabbamein.
Björgvin sat í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998-2002. Þá átti hann sæti í áfrýjunardómstól ÍSÍ undanfarna tvo áratugi. Björgvin bar hag GA ávallt fyrir brjósti og lagði klúbbnum lið með margvíslegum hætti fram á síðasta dag.
Björgvin varð níu sinnum klúbbmeistari GA og sex sinnum Íslandsmeistari í golfi á árunum 1971 til 1977 en hann keppti 56 sinnum á Íslandsmótinu, síðast í sumar á JaðarsvellI síðastliðið sumar. Þá varð hann Íslandsmeistari í flokki kylfinga 65 ára og eldri í Vestmannaeyjum í sumar. Hann fór 11 sinnum holu í höggi á ferlinum. Björgvin var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ á ársþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands nú í október.
Fyrri eiginkona Björgvins var Herdís Snæbjörnsdóttir, flugfreyja og fulltrúi, þau skildu. Dóttir þeirra er Steina Rósa. Síðari eiginkona Björgvins er Jóna Dóra Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Stjúpsonur Björgvins og sonur Jónu Dóru er Kristinn Geir.
Stjórn og félagar í GA kveðja góðann félaga og votta aðstandendum dýpstu samúð.