Öll æfingaaðstaðan flutt á einn stað.
Það hefur staðið til að koma allri aðstöðu til æfinga á einn stað en eins og kylfingar vita þá höfum við verið með pláss í Þrekhöllinni til að slá og spila í golfhermi. Nú er svo komið að aðstaðan flyst öll í kjallarann í íþróttahöllinni og eru flutningar hafnir, farið var í þetta af fullum krafti núna þar sem húsnæðið mun nýtast Júdó deild Draupnis en þeir eru á hrakhólum með húsnæði.
Um er að ræða flutning á starfsemi Draupnis úr Íþróttahúsi KA, Lundarskóla, í húsnæði Þrekhallarinnar við Skólastíg þar sem ÍBA hefur leigt aðstöðu fyrir Golfklúbb Akureyrar.
Tæplega 3 ár eru eftir af samningi ÍBA við Þrekhöllina og hefur Golfklúbburinn verið tilbúinn að færa sig úr því húsnæði til að koma allri sinni starfsemi á einn stað. Ekki hefur verið hægt að losa ÍBA undan þeim samningi og því hentar það vel að flytja starfsemi Draupnis þangað og nýta húsnæðið.
Séð verður til þess að aðstaðan, fyrir áframhaldandi starfsemi á báðum stöðum, verði viðunandi eftir flutninginn.
Í framhaldinu verður svo farið í að dýpka gólfið og koma fyrir góðri aðstöðu í vesturálmu niðri, ennfremur að útbúa þar aðstöðu fyrir golfhermi.
Þessar breytingar og vinna við þær ættu ekki að hafa nein áhrif á það starf sem nú er í Golfhöllinni.