Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar fyrir rekstrarárið 2021 en fundurinn var haldinn bæði í gegnum netið og á Jaðri og mættu 43 GA félagar á fundinn og aðrir 9 fylgdust með í gegnum fjarfundarbúnað en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf. Það var hann Sigmundur Einar Ófeigsson sem var kosinn fundarstjóri og Guðlaug María Óskarsdóttir var kosinn ritari. Bjarni Þórhallsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, hóf fundinn á því að lesa skýrslu formanns og fór því næst Steindór Kristinn, framkvæmdarstjóri, yfir rekstrarárið ásamt því að fara yfir ársreikning klúbbsins fyrir 2021 og var hann samþykktur af fundargestum.
Hagnaður ársins nam 26.300.107kr eftir fjármagnsliði, samanborið við 18.590.085kr hagnað árið áður. Rekstrartekjur jukust um 31,1 milljón á árinu eða um 17,3%. Vel gekk að borga niður skuldir á árinu en aldrei hefur verið greitt niður jafn mikið af skuldum á einu ári. Rekstrartekjur námu 210.651.695kr og rekstrargjöld voru 178.635.191kr með afskriftum upp á 10.251.601kr og lækkuðu skuldir klúbbsins á milli ára. EBITA rekstrarársins var 42 milljónir króna sem er aukning frá því í fyrra. Miðað við EBITU ársins í ár þá tæki innan við tvö ár að greiða skuldir GA ef ekkert væri fjárfest á tímabilinu. Vaxtaberandi skuldir eru 65 milljónir og 10 milljónir vegna fjárfestinga sem eru þó án vaxta.
Borin var upp tillaga stjórnar um árgjöld fyrir 2022 sem var samþykkt. Um 6% hækkun er á árgjöldunum fyrir næsta ár og verðskrá okkar má sjá á heimasíðu eða hér. Áfram bjóðum við þeim sem greiða árgjöldin sín fyrir 15. mars áfyllingu á kort á Klappir, æfingasvæði GA, paráfylling er innifalin í árgjaldi fyrir þá meðlimi.
Steindór fór yfir rekstaráætlun fyrir árið 2022 en í henni eru tekjur áætlaðar 202.500.000kr samanborið við 210.651.695kr árið 2020/2021. Gjöld eru áætluð 181.200.000kr samanborið við 178.635.191kr árið áður.
„Eftir annasamt og veðursælt golfsumar er ekki annað hægt en að horfa björtum augum á framhaldið og hlakka til að takast á við undirbúning næsta golfsumars. GA er með frábæra félagsmenn sem skapa þennan góða sjarma sem félagið og völlurinn hefur. Gestir Jaðarsvallar eru okkur einnig mikilvægir og leggjum við mikið upp úr góðri þjónustu við þá sem og okkar félagsmenn. Jaðarsvöllur er gott og mikilvægt aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu á Akureyri, hingað sækir fjöldinn allur af ferðafólki sem fleiri en GA njóta góðs af. Svo mikið að okkar samstarfsaðilar eins og td. veitingastaðir og hótel taka vel eftir og sækjast eftir okkar samstarfi. Samhliða uppbyggingu Jaðarsvallar síðustu tíu árin hefur eftirspurn aukist mikið sem er okkur mikilvægt, sbr fjölgun félags- og ferðamanna svo dæmi sé tekið. Fyrir hönd starfsfólks og stjórnar GA þökkum við fyrir gott ár og vonandi sjáum við sem flesta á nýju ári“ - Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdarstjóri GA.
Því næst var komið að kosningu stjórnar en Bjarni Þórhallsson var endurkjörinn formaður GA. Tvö laus sæti voru í stjórn en þeir Jón Steindór Árnson og Skúli Eyjólfsson voru endurkjörnir. Þá var kosið um varamenn í stjórn og voru þrír frambjóðendur í tvö sæti og að lokum fór það svo að Finnur Bessi Sigurðsson kemur nýr inn í varastjórn og Viðar Valdimarsson lætur af störfum, Vigfús Ingi heldur áfram í varastjórn. Þær nefndir sem starfa fyrir GA voru kynntar fyrir fundarmönnum og samþykktar.
Þá afhenti Steindór henni Stefaníu Kristínu blómvönd og þakkaði henni kærlega fyrir sitt frábæra starf hjá klúbbnum undanfarin ár en Stefanía flytur brátt suður og hefur störf hjá GKG. Heiðar Davíð tilkynnti síðan hvaða kylfingar það voru sem hlutu háttvísisbikar GA og hver var kylfingur ársins.
Skúli Gunnar Ágústsson hlaut háttvísisbikar GA. Í umsögn frá Heiðari Davíð segir að Skúli Gunnar sé klúbbnum og sjálfum sér til sóma út á velli með hegðun sinni og viðhorfi. Hann er duglegur við æfingar og góð fyrirfmynd fyrir okkar yngri kylfinga. Skúli Gunnar er vel að þessum titli kominn.
Lárus Ingi Antonsson var krýndur kylfingur ársins annað árið í röð en meðal afreka sem Lárus náði á árinu eru þessi:
Stigameistari 19-21 árs á GSÍ mótaröðinni
Íslandsmeistari í holukeppni 19-21 árs
Komst í úrslitaleik í Íslandsmótinu í holukeppni
Lenti í 3. sæti á Íslandsmótinu í höggleik á Jaðarsvelli
Akureyrarmeistari á nýju mótsmeti
Valinn í karlalandsliðshóp GSÍ nú í haust.
Þá veitti Steindór Íslandsmeistarasveit okkar í drengjaflokki 15 ára og yngri afreksmerki GA en hana skipuðu þeir:
Ólafur Kristinn Sveinsson
Ragnar Orri Jónsson
Skúli Gunnar Ágústsson
Valur Snær Guðmundsson
Veigar Heiðarsson
Á aðalfundinum í ár voru þrír GA félagar gerðir að heiðursfélögum klúbbsins en það voru þeir Árni Sævar Jónsson, Halldór Magnús Rafnsson og Sævar Gunnarsson. Allir þessir menn eiga það sameiginlegt að hafa unnið frábært og óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn.
Árni Sævar Jónsson starfaði sem golfkennari hjá GA til fjölda ára og var einnig framkvæmdarstjóri klúbbsins. Hann hefur komið að einhverju leyti að kennslu á stórum hópi þeirra kylfinga sem eru í GA með allri sinni vinnu undanfarin ár. Hann vann einnig sjálfboðaliðavinnu við alls kyns viðhald á húsbúnaði félagsins.
Halldór Magnús Rafnsson var formaður GA frá 2003-2011 sem var eitt af mörgum uppbyggingartímabilum í sögu okkar og á hann að öðrum ólöstuðum gríðarlega stóran þátt í að fá þá hönnun og breytingar í gegn sem völlurinn gekk í gegnum á hans tíð ásamt því að fá það fjármagn sem til þurfti. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir GSÍ ásamt störfum fyrir ÍBA.
Sævar Gunnarsson hefur farið út um víðan völl á Jaðarsvelli með trjáplöntu í hönd undarna áratugi. Í 25 ár sýndi hann gríðarlega elju við að planta trjágróðri og huga að þeim gróðri sem fyrir var. Hann á stóran þátt í þeirri ásynd sem völlurinn hefur í dag sem útivistarsvæði og keppnisvöllurinn með öllum þeim trjám og gróðri sem er á vellinum.
Bjarni Þórhallsson formaður GA lauk síðan fundinum með stuttri ræðu þar sem hann fór yfir næstu skref okkar í uppbyggingu Jaðarsvallar og hvaða brýnu verkefni eru á döfinni hjá okkur..
Við hjá GA erum ánægðir með þátttöku félaga á fundinum og hlökkum við til ársins 2022 með okkar frábæru félögum.