Akureyrarmótið í golfi hófst í morgun þegar þeir Ágúst Hilmarsson og Guðmundur E. Lárusson voru ræstir út klukkan 8:00 í flokki öldunga 65 ára og eldri.
Það var að sjálfsögðu yfirræsirinn Karl Haraldur Bjarnason sem sendi þá af stað í rjómablíðu og er ljóst að Akureyrarmótið í ár verður hin mesta skemmtun ef veðurguðirnir halda áfram að blessa okkur.
Daniel Harley, vélamaður hjá GA, var við vinnu á vellinum í morgun og tók þessar flottu myndir sem sjá má hér að neðan en völlurinn lítur glæsilega út og hlökkum við mikið til komandi daga.