Nú er skráning langt komin í Arctic Open 2019 sem hefst með opnunarathöfn miðvikudaginn 19. júní.
Tæplega 200 kylfingar eru skráðir til leiks og verður mótið í ár hið glæsilegasta.
Veislustjóri er enginn annar en Guðmundur Benediktsson, Gummi Ben, sem margir þekkja úr lýsingum á knattleikjum en má segja að frægðarsól hans hafi heldur betur skinið á Evrópumótinu í Frakkland 2016 með frábærum lýsingum hans á landsleikjum Íslands. Gummi er einnig þekktur fyrir afbragðhæfileika í eldhúsinu en hann stýrir þættinum Ísskápastríð sem sýndur er á Stöð 2 með Evu Laufey Kjaran. Það verður þó ekki hann Gummi sem sér um matinn á lokahófinu heldur verður það hann Jón Vídalín sem verður með magnaðan mat fyrir veislugesti.
Tónlistarmaðurinn Rúnar Eff mætir einnig og tekur nokkur lög fyrir veislugesti á laugardagskvöldinu og má með sanni segja að verðlaunaafhending og veislan verði frábær skemmtun fyrir kylfinga. Rúnar Eff er tónlistarmaður frá Akureyri sem hefur einnig gert það gott í íshokký undanfarna áratugi með liði SA. Rúnar Eff keppti í undankeppni Eurovision fyrir Íslandshönd árið 2017 með laginu Mér við hlið og vann til verðlauna á Texas Sounds International Country Music Awards það sama ár en hann var valinn söngvari ársins á þeirri kántrýhátíð. Það verður því væntanlega mikið fjör þegar hann stígur á svið á Jaðri á Arctic Open.
Ennþá eru nokkur pláss laus í mótið og fer skráning fram í síma 462-2974 eða á skrifstofa@gagolf.is.
Hér má sjá Gumma Ben fara á kostum við lýsingu á ævintýralegum 2-1 sigri Íslands á Englandi í 8 liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi 2016
Hér má sjá Rúnar Eff stíga á svið í undankeppni Eurovison 2017 með laginu Mér við hlið