Í dag, miðvikudaginn 23. júní, verður Arctic Open formlega sett hér á Jaðri kl. 20:00. Í ár eru 252 kylfingar skráðir til leiks og hefur ekki verið eins mikil eftirspurn eftir þátttöku síðan elstu menn muna.
Mótið verður einkar glæsilegt í ár, flott teiggjöf frá FootJoy og ýmislegt fleira. Sigmar Vilhjálmsson, Simmi Vill, mun vera veislustjóri í glæsilegri veislu á laugardagskvöldinu og fara með gamanmál og halda fjörinu uppi. Simma ættu flestir Íslendingar að þekkja en hann hefur gert garðinn frægan á sjónvarpsskjám okkar Íslendinga undanfarna áratugi ásamt því að reka veitingastaði víðs vegar um land. Honum innan handar verður Eyþór Ingi Gunnlaugsson en hann mun vera með tónlistaratriði á laugardagskvöldinu og kynda undir raddböndin í salnum. Jón Vídalín verður með veisluna á sínum herðum þegar kemur að veitingum og er boðið upp á pestó lax á grænmetisbeði, nautalund og bernaise ásamt eftirrétt.
Í kvöld hefst opnunarhátíðin kl. 20:00 með stuttum ræðuhöldum og boðið verður upp á pinnamat og létta drykki. Drive-keppnin verður á sínum stað ásamt chipkeppni fyrir kylfinga og hvetjum við að sjálfsögðu sem flesta sem skráðir eru í mótið til að mæta. Á morgun verður ræst út frá 12:10 - 22:30 og verður það sama upp á teningnum á föstudaginn. Á laugardaginn opnar síðan húsið kl. 18:00 og veislan hefst formlega klukkan 19:00.
„Að venju er mikil tilhlökkun fyrir Arctic Open en mótið hefur aldrei verið stærra en í ár. Alls er 252 keppendur skráðir, af þeim er um 60% ferðamenn, bæði innlendir og erlendir. Við leggjum mikið upp úr að upplifunin sé sem best og þrotlaus vinna unnin innan sem utandyra, svo allt sé eins gott og mögulegt er hverju sinni. Mótinu verður svo gerð góð skil á laugardagskvöldinu með veisluhöldum en þar mun Sigmar Vilhjálmsson vera veislustjóri og Eyþór Ingi mun þenja raddböndin af sinni einstöku snilld. Veðurspáin er frábær fyrir mótið og ég veit að gleðin verður með í för keppenda þannig að þetta verður hin mesta skemmtun. " segir Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdarstjóri GA.