Egils-Gull mótið, fyrsta mót Stigamótaraðarinnar 2019 fór fram um helgina á Þorlákshafnarvelli. Völlurinn á Þorlákshöfn er oft með fyrstu völlum landsins til að komast í gott stand og léku kylfingar við flottar aðstæður í ágætis veðri. Leiknar voru 36 holur á laugardeginum og eftir þá tvo hringi var niðurskurður þar sem 49 kylfingar í karlaflokki og 15 kylfingar í kvennaflokki komust áfram og fengu að spila á sunnudeginum. GA sendi 4 kylfinga á mótið og þar af komust 2 þeirra í gegnum niðurskurðinn.
Andrea Ýr var eini kylfingur GA í kvennaflokki og spilaði hún stabílt og flott golf alla helgina. Hún flaug í gegnum niðurskurðinn og endaði með skorin 72-75-72 (+6) sem skilaði henni 5. sætinu.
Í karlaflokki voru það þeir Víðir, Tumi og Eyþór sem léku fyrir hönd GA. Víðir Steinar átti erfiðan laugardag á Þorlákshöfn og spilaði hann fyrstu 2 hringina á 79-80 (+17) sem dugði ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn en vert er að nefna að á seinni hring lenti hann í smávægilegum meiðslum sem hjálpuðu ekki við að skora vel. Eyþór Hrafnar átti einnig erfiðan fyrsta dag sem dugði honum ekki í gegnum niðurskurðinn en hann spilaði á 82-78 (+18). Tumi Hrafn var eini leikmaður GA í karlaflokki sem komst í gegnum niðurskurðinn og lékk hann glæsilegt golf síðustu 2 hringina. Hann klifraði upp um heilmörg sæti milli hringja og endaði jafn í 27. sæti með skorin 79-71-69 (+6).
Næsta mót Stigamótaraðarinnar 2019 verður Síma-mótið í Mosfellsbæ þann 8. Júní og vonum við að kylfingar GA geri enn betur þar.