Flottur árangur í Íslandsmóti golfklúbba

Íslandsmót golfklúbba í flokkum 15 ára og yngri, og 18 ára og yngri fóru af stað í gær. 

Sveitir 15 ára og yngri leika á Akranesi þar sem bæði strákarnir og stelpurnar stóðu sig frábærlega. Strákasveit GA gerði sér lítið fyrir og sigraði höggleikinn eftir magnaða hringi hjá Veigari Heiðarssyni og Skúla Gunnari Ágústssyni, sem áttu 2 bestu skorin í höggleiknum. Þeir mættu svo sveit GKG(B) í fyrsta leik riðlakeppninnar þar sem allir strákarnir unnu sína leiki og eru því í góðum málum á skaganum.

Stúlknasveitin lék flott golf í höggleiknum í gær og enduðu þær í 3. sæti. Þær sátu hjá í 1. umferðinni en mæta sveit GKG(A) í dag sem verður skemmtilegt að fylgjast með.

Sveit GA(B)/GH endaði í 10. sæti höggleiksins og sátu einnig hjá í morgun. Þeir mæta Golfklúbbi Skagafjarðar í fyrsta leik riðilsins sem verður mikilvægur leikur.

Hægt er að fylgjast með gangi mála í 15 ára og yngri hér

 

Í 18 ára og yngri eigum við eina karlasveit sem spilar á Hellu. Höggleikurinn fór vel hjá þeim og spiluðu allir stöðugt og flott golf sem skilaði þeim 4. sætinu. Í riðlakeppninni mættu þeir fyrst sveit GKG(B), sem þeir unnu 2-1(erfiður dagur fyrir GKG gegn GA). í morgun spiluðu þeir félagar við GOS sem þeir sigruðu einnig, 2-1. Frábær árangur hjá piltunum sem spila við GR(A) um sæti í úrslitaleiknum á morgun!

Hægt er að fylgjast með gangi mála í 18 ára og yngri hér