Þrátt fyrir að Jaðarsvöllur hafi lokað um miðjan október þýðir það ekki að starfsmenn GA hafi setið auðum höndum síðan.
Mikil og góð vinna hefur verið í gangi út á velli en um þessar mundir hafa vallarstarfsmenn okkar unnið að nýjum "rauðum" teigum á 2. og 8. braut. Á 2. braut var teigurinn færður frá tjörninni og á 8. braut styttist holann töluvert með nýrri staðsetningu. Sjá meðf. myndir.
Lagðar voru drenlagnir fyrir framan 1. flötina með niðurföllum til að fanga yfirborðsvatn sem rennur niður brekkuna í átt að flöt. Eins var farið í drenvinnu sem enn stendur yfir á 3. braut og verður klárað á vordögum.
Okkar frábæru sjálfboðaliðar hafa svo unnið hörðum höndum í vinnu í Klöppum, þétta hurðar og þakrennur settar á suðurvegg ásamt boltavörnum við útveggi bása.
Þá standa Tumi Hrafn og Andrea Ýr í ströngu með liðum sínum í háskólagolfinu út í Bandaríkjunum og eru þau að standa sig vel.
Western Carolina, liðið hans Tuma, endaði í 7. sæti á Carolina Colligate Invitational Open um miðjan október og spilaði Tumi þar á 75-74-69 og endaði í 28. sæti af 83 keppendum. Í lok október var síðan komið að Battle at Black Creek þar sem Western Carolina endaði í 4. sæti af 18 skólum. Tumi spilaði á 78-69-78 og endaði í 57. sæti. Næsta mót hjá Tuma er síðan í febrúar og munum við halda áfram að flytja frekari fréttir af honum.
Elon, liðið hennar Andreu, lenti í 2. sæti á öðru móti vetrarins og gerði sér svo lítið fyrir og sigraði á Aggie Invitational sem var næsta mót. Keppt var í holukeppni og spilaði Andrea alla þrjá leikina fyrir sitt lið. Í fyrstu umferð vann hún 3/2, síðan tapaði hún 5/4 og vann svo lokaleikinn sinn í úrslitunum 3/2. Frábær árangur hjá Andreu og hennar liði. Um miðjan október keppti síðan skólinn á Chris Banister Golf Classic og endaði í 2. sæti. Andrea spilaði á 81-82-84 og endaði í 31. sæti.