Eins og flestir vita fór fram Íslandsmót golfklúbba í flokkum 15 ára og yngri, og 18 ára og yngri. Þar áttum við fjöldann allan af sveitum sem spiluðu og stóðu sig með prýði.
Helst ber þar að nefna sveit 15 ára og yngri drengja, GA 1 sem gerðu sér lítið fyrir og urðu Íslandsmeistarar eftir 2 frábæra sigra í dag! Þeir byrjuðu daginn á því að sigra sveit GR, 2.5-0.5 og tryggðu sig með því í úrslitaleikinn. Þar mættu þeir frábærri sveit GK, sem þeir sigruðu 2-1 eftir spennandi leiki! Strákarnir eru því Íslandsmeistarar og óskum við þeim til hamingju með sigurinn.
Í sama móti spilaði sveit GA 2 við GKG 2 í morgun. Sá leikur tapaðist 1-2 og mættu drengirnir því NK 2 í leiknum um 13. sætið. Þann leik sigruðu strákarnir með yfirburðum, 3-0, og sýndu flotta takta á vellinum. Flottir!
Blönduð sveit GA og GSS í flokki 15 ára og yngri stúlkna tapaði sínum leik í morgun 0.5-2.5 gegn mjög öflugri sveit GM. Stelpurnar mættu því sveit GKG í leik um bronsið sem þær sigruðu 3-0. Geggjaðar stelpurnar og óskum við þeim einnig til hamingju með þennan flotta árangur.
Drengjasveitin í 18 ára og yngri spilaði einn leik í dag, við GM. Strákunum gekk ekki nægilega vel og enduðu þeir á því að tapa leiknum 1-2 og enduðu því í 4. sæti mótsins.
Stelpurnar í 18 ára og yngri töpuðu fyrsta leik dagsins gegn GR 0.5-2.5. Þær lentu því í 4. sæti mótsins líkt og strákarnir.
Það var frábært að fylgjast með krökkunum um helgina og veittist aukin innsýn í þennan keppnisheim með myndböndum frá þjálfurunum sem ferðuðust með krökkunum. Sem áður er framtíðin björt hjá okkur í GA, góðar stundir.