Nú um helgina mun fara fram Íslandsmótið í höggleik sem haldið verður á Hlíðarvelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Eins og við flest vitum verður mótið haldið með afar óvenjulegu sniði í ár vegna aðstæðna en þrátt fyrir það er mikil spenna fyrir mótinu. Það sem er hinsvegar ekki óvenjulegt er að GA á slatta af keppendum á Íslandsmótinu í ár og vitum við að þau verða klúbbnum okkar til sóma fyrir sunnan.
Aðeins fjórir klúbbar eiga fleiri keppendur en GA á Íslandsmótinu í ár en fyrir hönd klúbbsins spila 10 karlar og 2 konur. Einnig er verðugt að nefna að yngsti karlkyns leikmaður mótsins kemur frá GA en það er hann Veigar Heiðarsson, hann er fæddur árið 2006. Feðgarnir Veigar og Heiðar eru báðir skráðir til leiks í mótinu og verður gaman að sjá þá etja kappi. Annars óskum við auðvitað okkar fólki góðs gengis og hvetjum fólk til að fylgjast með okkar keppendum.