Í gær fór fram í Menningarhúsinu Hofi athöfn þar sem íþróttakarl og íþróttakona Akureyrar voru verðlaunuð. Það voru þau Viktor Samúelsson kraftlyftingarmaður og Aldís Kara Bergsdóttir skautakona sem hlutu nafnbótina að þessu sinni.
Alls tilnefndu 14 aðildarfélög ÍBA 38 íþróttamenn úr sínum röðum og var síðan kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp. Bæði Andrea Ýr og Lárus Ingi voru á meðal 10 efstu í kjöri íþróttamanns Akureyrar. Andrea Ýr hafnaði í 6. sæti og Lárus Ingi í 10. sæti.
Tveir golfarar hafa orðið íþróttamaður Akureyrar síðan 1979 þegar verðlaunin voru fyrst veitt en það eru þeir Ómar Halldórsson (1997) og Ingvar Karl Hermannsson (2000).
Þá veitti afrekssjóður 10 afreksefnum styrki en alls hluti 20 einstaklingar afreksstyrki fyrir samtals rúmlega 5 milljónir á athöfninni í gær.
Lárus Ingi og Andrea Ýr hlutu bæði styrki sem mun nýtast þeim vel í golfinu en þau hafa bæði verið í landsliðshópum GSÍ og eru vel að þessu komin.
Við óskum Viktori og Aldísi innilega til hamingju með verðlaunin.