Golfklúbbur Akureyrar hefur gengið frá ráðningu á nýjum golfkennara en það er hann Ólafur Auðunn Gylfason sem er flestum félagsmönnum kunnugur.
Ólafur, eða Óli Gylfa, hefur lengi verið meðlimur í GA og keppt fyrir hönd okkar í sveitakeppni og var til að mynda í Íslandsmeistarasveit GA 50 ára og eldri árið 2020. Þá var Ólafur Akureyrarmeistari í golfi árið 2011 en á þeim tíma var hann einmitt golfkennari hjá okkur.
Hann fór í golfkennaranámið árið 2007 og kenndi á Grenivík og Sauðárkróki áður en hann tók við hér hjá GA árið 2010 og kenndi hjá okkur í þrjú ár.
Við hjá GA bindum miklar vonir við ráðningu Ólafs og hlökkum mikið til samstarfsins en Ólafur mun hefja störf hjá okkur þann 1. júní á næsta ári. Ólafur verður Heiðari til halds og trausts í barna- og unglingastarfi GA. Víðir Steinar Tómasson kylfingur hjá GA hefur tekið að sér þjálfun á yngsta hóp GA í vetur og vonir standa til að það samstarf verði enn meira.
Stefanía Kristín hefur sagt starfi sínu lausu hjá GA en hún hefur ákveðið að flytja suður á land og mun hefja störf hjá GKG á næsta ári. Stefanía hefur kennt hjá okkur undanfarin ár og staðið sig með eindæmum vel og er ljóst að mikill söknuður verður af henni. Við óskum henni góðs gengis á nýjum vettvangi og þökkum fyrir samstarfið undanfarin ár. Einnig viljum við benda á að þeir sem eiga eftir golfkennslu hjá Stefaníu eru hvattir til að setja sig í samband sem fyrst, stefania@gagolf.is