Þessa vikuna fer fram hið árlega Íslandsmót golfklúbba í flokkum 15 ára og yngri og 18 ára og yngri. GA á sveitir í pilta og stúlknaflokki í báðum þessum mótum og hafa krakkarnir staðið sig glæsilega hingað til.
15 ára og yngri sveitirnar spila sitt mót á Hellu. Þar á bæ gerði GA 1 sér lítið fyrir og sigraði höggleikinn með frábærum hringjum frá Skúla Gunnari Ágústssyni(76), Veigari Heiðarssyni(76) og Val Snæ Guðmundssyni(75). GA2 endaði í 14. sæti í höggleiknum og stóðu strákarnir sig með prýði. Í sveit GA 2 eru Ágúst Már Þorvaldsson, Baldur Sam Harley, Heiðar K. Finnsson og Kristófer Magni Magnússon. báðar sveitirnar spiluðu fyrstu 2 umferðirnar sínar í dag. GA 1 sigraði báða leiki sína, fyrst 3-0 gegn Grindavík og svo 2-1 gegn Vestmannaeyjum. Þeir eru því í góðum málum fyrir morgundaginn og spila við GR 1 í fyrramálið.
GA 2 spilaði við GS í morgun, og töpuðu þeim leik 1-2. Þeir mæta GKG 2 í fyrramálið og óskum við strákunum góðs gengis.
Stelpurnar í 15 ára og yngri spiluðu flott golf í höggleiknum og enduðu í 3 sæti. Flottur árangur hjá þeim. Þær spiluðu við GK í dag og sigruðu leikinn 2-1. Í fyrramálið spila þær svo við sveit GM um að komast í úrslitaleikinn!
18 ára og yngri sveitirnar spila sína leiki á Akranesi og hefur gengið ágætlega hjá þeim. Drengjasveitin endaði í 5. sæti eftir höggleikinn og byrjaði mótið á því að spila gegn sveitinni sem sigraði höggleikinn, GR. Sá leikur tapaðist 0.5-2.5, en allir leikir voru gífurlega jafnir og hefðu getað dottið okkar megin. Seinni leikur dagsins var gegn GK, og unnu okkar menn þann leik 2-1 eftir sigra í báðum singles leikjunum. Strákarnir eru í fríi í fyrramálið en munu spila seinni hluta föstudags um 3. sætið í mótinu.
Stúlkurnar í 18 ára og yngri sveitinni hafa verið að spila mjög flott og hefur verið gaman að fylgjast með þeim á Instagrammi golfklúbbsins. Þær mættu GM í morgun, en þar er í rauninni um að ræða unglingalandslið íslenskra stúlkna. Eftir flotta baráttu tapaðist sá leikur 0-3. Í öðrum leik dagsins spiluðu stelpurnar við sveit GKG og voru þeir leikir spennandi allan tímann, en duttu frá okkar konum á lokasprettinum og tapaðist leikurinn 1-2. Á morgun mæta stelpurnar öflugri sveit GR og verður spennandi að fylgjast með þeim.