Nú rétt í þessu var að ljúka Íslandsmóti golfklúbba 12 ára og yngri þar sem GA sendi eina sveit. Í henni voru þeir Hákon Bragi, Baldur Sam, Axel James og Arnar Freyr. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og lentu í 3.sæti í gulu deildinni (2.deild) eftir vasklega baráttu. Þeir unnu þrjá leiki og töpuðu tveimur og voru að lokum jafnir sveit GKG í 2.-3.sæti en enduðu í 3.sæti á innbyrðisviðureignum.
Strákarnir voru að keppa á Íslandsmóti í fyrsta skiptið og er árangur þeirra svo sannarlega gríðarlega góður, frábært fyrir svona unga drengi sem hafa stundað íþróttina í stuttan tíma að fá tækifæri til að keppa í þessu móti og er ljóst að framtíðin er björt hjá GA. Þess má til gamans geta að Baldur, Arnar og Hákon eru 10 ára og Axel James aðeins sjö ára þannig það má svo sannarlega segja að þeir eiga nóg eftir í keppnisgolfinu og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Við óskum strákunum og fylgdarliði þeirra innilega til hamingju með árangurinn og við hjá GA erum gríðarlega stolt af þeirra frammistöðu.