Íslandsmót golfklúbba fyrir eldri kylfinga er haldið hér á Jaðri núna um helgina. Völlurinn verður því lokaður eins og áður hefur komið fram, en fólk er auðvitað velkomið á æfingasvæðin okkar eða Dúddisen völlinn.
Eftir fyrsta keppnisdag hefur sveit GA klárað 2 leiki, gegn GK og GÖ. Stelpurnar okkar áttu í erfiðleikum með ríkjandi Íslandsmeistara GK, og fór sá leikur 5-0, GK í vil.
Baráttuandinn yfirgaf stelpurnar þó ekki þrátt fyrir það og komu þær sterkar til leiks í seinni viðureign dagsins gegn Öndverðarnesi. Þeim leik lauk með glæstum 4-1 sigri GA. Okkar konur eru því að spila hreinan úrslitaleik gegn Nesklúbbnum núna í morgunsárið, þar sem bæði lið eru með 1 vinning og 1 tap eftir gærdaginn. Með sigri kæmust þær upp úr riðlinum og ættu góða möguleika á að ná í úrslitaleikinn!
Stelpurnar sýndu frábæra spilamennsku gegn NK og sigruðu leikinn 4-1, og tryggðu sig með því uppúr riðlinum sínum með 2 sigra og 1 tap.
Seinni part gærdagsins spilaði sveit GA við sveit GR um sæti í úrsiltunum. Leiknum lauk með sigri GR, sem var augljóslega hörkusveit.
Okkar konur héldu því í leik gegn GKG um verðlaunasæti í mótinu. Eftir harða baráttu var það svo sveit GKG sem bar sigur úr býtum, og lauk því sveit GA mótinu í 4. sæti sem er glæsilegur árangur!
Áfram GA!