Nú á næstu dögum munum við birta smá tölfræði yfir spilaða hringi á Jaðarsvelli, félagatal okkar og fleira í þeim dúr frá 2019.
Ljóst er að klúbburinn er á mikilli uppleið og stefnum við áfram hærra.
Í sumar voru GA félagar ábyrgir fyrir 15.105 hringjum sem spilaðir voru á Jaðarsvelli og hefur aldrei verið meira frá því að talningar hófust 2014. Við teljum þó ljóst að þessir hringir hafi verið töluvert fleiri í sumar en stundum gleymist að skrá sig á teigtíma. Við höldum áfram að impra fyrir klúbbfélögum okkar að skrá sig á teig til að gera tölfræði okkar markvissari og skemmtilegri.
Spilaðir hringir í mótum hjá okkur voru á pari við undanfarin ár, ögn færri en 2018 sem var metár í spiluðum mótahringjum eða 4005 hringir. Í ár voru það 3852 hringir. Heilt yfir fannst okkur þátttaka í mót vera mjög góð í sumar og jókst á milli ára í fleiri mót en færri. Hins vegar munaði um óvænt forföll og fækkun í Arctic Open ásamt því að við vorum með færri GSÍ mót en árið á undan.
Við munum birta frekari tölfræði á þessum hringjum ásamt upplýsingum um félagatal okkar á næstu dögum.
Jón Heiðar.