Nú á næstu dögum munum við birta smá tölfræði yfir spilaða hringi á Jaðarsvelli frá árinu 2020.
Ljóst er að klúbburinn er á mikilli uppleið og stefnum við áfram hærra en golfiðkun árið 2020 jókst til muna hér fyrir norðan í ár miðað við undanfarin ár. Ljóst er að Íslendingar tóku fyrirmælum yfirvalda vel um að ferðast innanalands og var Akureyri vinsæll áfangastaður í golfferðir á árinu.
Í sumar var völlurinn opinn 167 daga sem er það mesta sem hann hefur verið opinn frá því að skipulögð talning hófst sumarið 2014. Ljóst er á þessum tölum að við hjá GA getum verið stolt af því að geta boðið upp á að hafa völlinn okkar opinn rétt tæplega hálft ár þetta árið. Ef ekki hefði verið fyrir hertar sóttvarnarreglur sem tóku gildi 1. nóvember er ljóst að við hefðum slegið metið enn frekar.
Heildarspil skráðra hringja var 26.982 hringir sem er það mesta frá árinu 2014 þegar veðrið var það besta í manna minnum. Þetta eru rúmlega 5.000 fleiri hringir en voru spilaðir árið 2014 sem er tæplega 25% aukning frá síðasta metári okkar hjá GA. Við viljum halda áfram að biðla til GA félaga að skrá sig á teig þegar þeir fara að spila til að við getum haldið sem best utan um spil á Jaðarsvelli.
Að meðaltali voru spilaðir 162 hringir á dag á Jaðarsvelli sem verður að teljast mjög gott. Í júní, júlí og ágúst voru að meðaltali spilaðir 212 hringir á dag á Jaðarsvelli sem eru 50 fleiri hringir á dag miðað við sama tíma árið 2019.
Við munum birta frekari tölfræði á þessum hringjum okkar á næstu dögum.
Jón Heiðar.