KPMG Hvaleyrarbikarnum lauk í gær í Hafnarfirði með þriðja hring keppenda. Þar bar hæst að okkar maður Tumi Hrafn Kúld endaði í 2.sæti mótsins með frábærum lokahring upp á 66 högg eða 5 högg undir pari. Tumi fékk fimm fugla, einn örn, 10 pör og 2 skolla, svo sannarlega frábær hringur hjá okkar manni og endaði hann jafn í 2-4 sæti mótsins á samtals tveimur höggum undir pari. Það var Axel Bóasson sem sigraði mótið sannfærandi á samtals 12 höggum undir pari.
Öðrum kylfingum okkar gekk ekki jafn vel en Eyþór Hrafnar spilaði síðasta hringinn á 78 höggum, Sturla á 80 höggum og Víðir Steinar átti heldur betur erfiðan dag og endaði á 92 höggum.
Þetta mót fer í reynslubankann hjá strákunum og er ljóst að Tumi mætir funheitur í sveitakeppnina sem fer fram hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar en þar spila okkar menn í efstu deild í A-riðli. Við munum flytja frekari fregnir af því móti þegar það hefst.
Hér má sjá árangur okkar manna svo í Hvaleyrarbikarnum:
2-4 sæti: Tumi Hrafn Kúld 73-72-66 = -2
28-29 sæti: Eyþór Hrafnar 76-73-78 = +14
47-48 sæti: Sturla Höskuldsson 82-82-80 = +31
54-55 sæti: Víðir Steinar 75-84-92 = +38