Í gær, sunnudaginn 22. september, var hin árlega Bændaglíma GA haldin hátíðleg. Veðrið var með allra besta móti og mikil ásókn var í mótið en tæplega 90 manns mættu upp á Jaðarsvöll til að taka þátt.
Bændur voru þau Heiðar Davíð og Stefanía Kristín sem leiddu sín lið áfram í baráttu en spilað var betri bola leikjafyrirkomulag og holl sett upp þannig að forgjöf í hollunum var nokkuð jöfn. Á endanum fór það svoleiðis að bláa liðið (Heiðar Davíð) endaði með 13 vinninga gegn 8 vinningum rauða liðsins.
Gleðin var ríkjandi á Jaðarsvelli í rjómablíðunni og þrátt fyrir að keppnin hafi verið mikil og kylfingar barist áfram þá snýst Bændaglíman að miklu leyti um það að hafa gaman með félagsmönnum GA undir sumarlok.
Að loknum leik var síðan súpa og brauð hjá Vídalín veitingum og voru kylfingar þá fljótir að grafa stríðsöxina og njóta samveru hvors annars.
Kennarar klúbbsins vilja benda rauða liðinu á að það er afsláttur af 5 tíma kennslukortum sem hægt er að nota í vetur til þess að koma sterkari til leiks að ári, frekari upplýsingar má finna hér: https://www.gagolf.is/is/um-ga/frettir/tilbod-a-vetrarkennslu-hja-heidari-david-og-stefaniu