Áfram eykst spil GA félaga

Í sumar fjölgaði töluvert í Golfklúbbi Akureyrar af meðlimum, en alls voru um 80 nýir félagsmenn sem skráðu sig í ár. Aldrei hafa verið fleiri nýskráningar í GA eins og í ár. Þeir áttu flestir það sameiginlegt að vera duglegir að heimsækja völlinn og spila hann í sumar. GA félagar spiluðu 21.230 hringi frá 21. maí fram til 30. september en árið á undan sem var algjört metár voru 21.091 hringur spilaður af GA félögum frá 11. maí - 25. október ef borið er saman sama tímabil þessi tvö ár voru hringirnir 19.093 í fyrra og má því sjá að hækkunin er töluverð.

GA félagar hafa nýtt sér völlinn gríðarlega vel í sumar og má segja að júlí mánuður hafi spilað þar stórt hlutverk en þann mánuð voru 6.066 hringir spilaðir af GA félögum að undanskildum golfmótum. Ef þeim er bætt við voru heildarhringir spilaðir af GA félögum 23.539 sem er fjölgun um rétt rúmlega 400 hringi frá árinu á undan. Ef tekið er meðaltal yfir spilaða hringi á dag hjá GA félögum voru þeir rétt rúmlega 159 í ár samanborið við 125 í fyrra (147 út september), 120 árið 2022, 111 árið 2021 og 108 árið 2020. 

Fjöldi mótshringja í ár var ögn meiri en í fyrra en alls voru 4.160 mótshringir spilaðir í ár samanborið við 3.962 í fyrra og er þetta aðeins í þriðja skiptið síðan talningar hófust 2014 að mótshringir fara yfir 4.000 á ári (2018:4.005, 2021:5.032). Alls voru 2.309 (55,5%) spilaðir af GA félögum og 1.851 (44,5%) af öðrum kylfingum sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Fullt var í Hjóna- og parakeppni Icelandair og GA og Höldur/Askja Open eins og undanfarin ár og þá voru 285 kylfingar í Arctic Open 2024 sem er nýtt met og var fullt í það löngu fyrir mót. Icewear bomban hélt áfram að laða til sín fólk og voru keppendur 208 í því móti. Alls hélt GA 11 golfmót með fleiri en 100 þátttakendum og fjögur mót með fleiri en 200 keppendum. Mótahald GA hefur verið stabílt undanfarin ár og laðar til sín fjöldann allan af keppendum víðs vegar frá og hlökkum við til mótahalds sumarsins 2025! 

Erlendir kylfingar héldu áfram að heimsækja Jaðarsvöll og voru sem fyrr fjölmargir erlendir kylfingar í Arctic Open eða 49 í ár. Alls spiluðu erlendir kylfingar 340 hringi á Jaðarsvelli í sumar sem er það þriðja mesta frá því að talningar hófust 2014 (2016:341, 2024:444). Jaðarsvöllur heldur áfram að vera vinsæl ferðamannaperla fyrir erlenda kylfinga en nú þegar hafa 45 erlendir kylfingar skráð sig í Arctic Open á næsta ári og 14 aðrir á biðlista.