Það voru um 50 fyrirtæki sem voru skráð til leiks í Firmakeppni GA 2013 sem fram fór í gær.
Veðrið lék við keppendur logn og þurrt veður, haustveður eins og það gerist best.
Það voru þeir Anton Ingi Þorsteinsson og sonur hans Lárus Ingi Antonsson sem spiluðu fyrir Vita fyrirtæki í eigu Icelandair og sigruðu með 26 punkta, spilaðar eru 9 holur fyrir hvert fyrirtæki og er spilaður betri bolti - punktakeppni með forgjöf.
Jöfn í 2. og 3. sæti voru Nýherji og Norðurorka með 23 punkta það voru Eygló Birgisdóttir og Hjörtur Sigurðsson sem spiluðu fyrir Nýherja og Páll Eyþór Jóhannsson og Vigfús Ingi Hauksson sem spiluðu fyrir Norðurorku.
Nú eru það Vitaferðir sem fá nafn sitt á þennan elsta og verðmætasta bikar í eigu klúbbsins, sem gefinn var af Helga Skúlasyni augnlækni - hefur verið spilað um hann síðan 1945 en þá vann Smjörlíkisgerð KEA.
Boðið var upp á heitt súkkulaði og glæsilegt kökuhlaðborð í mótslok.
Vill Golfklúbburinn þakka öllum þeim fyrirtækjum sem tóku þátt fyrir þeirra stuðning við klúbbinn og kylfingum fyrir þátttökuna.