Í sumar bættist í spilaða hringi hjá GA félögum frá árinu 2021 en alls spiluðu GA félagar 17.346 hringi í sumar og ef taldir eru mótshringir með voru hringirnir 19.593.
Það gleður okkur að GA félagar séu að auka við spilaða hringi hjá sér og fái rástíma sem henti þeim og er skráning á rástíma alltaf að verða betri og betri hjá félögum okkar. Ef tekið er meðaltal yfir spilaða hringi á dag hjá GA félögum voru þeir rétt tæplega 120 á dag miðað við 111 hringi árið 2021 og 108 hringi árið 2020.
Fjöldi mótshringja fór aðeins niður frá því í fyrra en eins og glöggir lesendur muna þá var algjört metár í mótshringjum í fyrra og spilaði Íslandsmótið í höggleik góðan part í því. Í ár voru 3879 mótshringir spilaðir á Jaðarsvelli sem er ca á pari við árin 2014-2020 en meðalfjöldi mótshringja þau ár er 3805 hringir. Fullt var í Hjóna- og parakeppni Golfskálans og GA eins og undanfarin ár og uppselt var einnig í Herramót Rub23 og Höldur Open. Þá voru 231 keppendur í Arctic Open en uppselt var í mótið snemma árs en einhver forföll voru á lokametrunum fyrir mótið. Við héldum 10 golfmót með 100 eða fleiri þátttakendum en 13 golfmót voru með 100 eða fleiri kylfingum í fyrra. GA félagar spiluðu 2247 hringi í golfmótum okkar í ár (58%) og aðrir 1679 (42%).
Þá fjölgaði erlendum kylfingum verulega hjá okkur eftir síðustu tvö covid-19 sumur en alls voru spilaðir 293 hringir á Jaðarsvelli af erlendum kylfingum miðað við 160 árið 2021 og 32 árið 2020. Ekki hafa fleiri erlendir kylfingar heimsótt Jaðarsvöll síðan 2017 en þá voru þeir 325 og er þetta þriðja stærsta sumarið í erlendum kylfingum á eftir 2016 og 2017. Þá eru nú þegar tæplega 30 erlendir kylfingar skráðir í Arctic Open á næsta ári svo það er ljóst að ferðamannastraumur erlendra kylfinga er á uppleið hér á landi og hjá okkur í GA.
Við þökkum öllum þeim kylfingum sem spiluðu Jaðarsvöll í sumar kærlega fyrir komuna og hlökkum til að taka á móti ykkur aftur á næsta ári.