Góðan dag kæru GA félagar
Þá er komið að föstudagsfréttum GA en við förum yfir víðan völl í fréttapakka dagsins.
Staðan á vellinum
Veturinn hefur verið býsna harður eins og flestir félagsmenn okkar hafa tekið eftir, mikið snjómagn liggur yfir vellinum eftir snjóþunga mánuði. Grínin urðu þó auð í byrjun desember og voru klakalaus í lok desember.
Á fyrstu dögum í janúar byrjaði klaki að safnast og hefur tíðin í upphafi árs verið frekar óhagstæð varðandi klakamyndun. Þá hafa starfsmenn okkar fylgst grant með stöðu mála og hefur verið mokað af grínum fyrir síðustu tvær hlákur. Tekist hefur vel að lágmarka myndun klaka á grínum en notast er við gatara til að brjóta klakann af flötunum þegar búið er að blása snjóinn af.
Við bíðum því spennt eftir næstu hláku sem mun hjálpa okkur. Meðfylgjandi myndir neðst í frétt sýna vallarstarfsmenn vinna á klakanum.
Biggi kylfusmiður á leið norður
Birgir V. Björnsson, golfkylfusmiður og golfkennari mun koma norður laugardaginn 15. febrúar og vera með mælingar á golfkylfum hjá okkur. Birgir verður í Golfhöllinni á milli 10:00 og 17:00. Birgir er sá færasti á sínu sviði hér á Íslandi og sérsmíðar golfkylfur eftir hentileika hvers og eins.
Hægt verður að prufa nýjustu Titleist og Ping kylfurnar og fá fullkomna mælingu frá Birgi. Pantanir fara fram á jonheidar@gagolf.is - einstakt tækifæri fyrir kylfinga. Í pöntun þarf að koma fram nafn og kennitala þess sem ætlar að fá mælingu.
Tilvalið að koma í mælingu og finna hvernig kylfur skal kaupa sér fyrir haustið, forgjafalækkandi kylfur á góðu verði! Nánar um Birgi á golfkylfur.is
Utanlandsferðir í vor
Icegolf.is býður félagmönnum í GA sérstakt tilboð í vikuferð til Costa Navarino í Grikklandi í apríl 2020. Tilboðsverð er 247.900kr. Þarna er öll aðstaða fyrsta flokks , tveir stórkostlegir golfvellir, fimm stjörnu lúxus hotel ásamt ótal annarri afþreyingu. Vikuferðirnar í apríl eru á eftirfarandi dögum: 4, 11, 18 og 25. apríl. Hægt að sjá nánar á icegolf.is og hægt að hafa samband við Dýrleif á dilla@icegolf.is.
Einnig býður Úrval Útsýn 10.000kr afslátt í golfferð til Alicante Golf og El Plantio í mars, tilboðið gildir til 31. janúar. Hægt að bóka á uu.is eða í síma 585-4000.
Fyrsta mót vetrarins í golfhermunum
Fyrsta móti vetrarins lýkur 9. febrúar og hafa kylfingar því enn rúmlega tvær vikur til að taka þátt. Ekkert kostar í mótið en spilaður er Shelter Harbor völlurinn í Trackman forritinu. Þó nokkrir hafa nú þegar skilað inn skori og minnum við á að hægt er að skila skori oftar en einu sinni. Nánar hér: https://www.gagolf.is/is/um-ga/frettir/fyrsta-golfmot-vetrarins-i-hermunum
GA derhúfur og buff til sölu
Í Golfhöllinni erum við með GA derhúfur og GA buff til sölu á góðu verði. Derhúfurnar kosta 3.000kr og buffin 2.500kr, hægt er að kaupa þetta saman á 5.000kr. Við viljum endilega hvetja félagsmenn til að vera merktir klúbbnum sínum. Takmarkað upplag en aðeins 25stk af hvoru voru framleidd í þessum skammti. Hægt er að fá derhúfurnar bæði með beinu og bognu deri.