Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur GA fór fram í gær fimmtudag 28. nóvember. 

Eftirfarandi er það helsta sem fram fór á fundinum.

Skýrsla stjórnar

Í skýrslu stjórnar var gerð grein fyrir starfi síðasta árs og störfum nefnda klúbbsins. Formaður fór yfir það helsta sem gert var á árinu og helstu afrek kylfinga. Þakkaði hann öllum þeim sem unnu hörðum höndum að því í vor að koma vellinum í gott stand eftir erfitt árferði í vor. „Þetta hefði ekki áunnist nema með miklu og óeingjörnu sjálfboðastarfi, öflugu fólki í nefndum sem og góðu starfsfólki að ógleymdum jákvæðum GA félögum“ var meðal þess sem fram kom í máli formanns.

Tengt efni: Skýrsla stjórnar 2013

Rekstur ársins

Ársreikningur var samþykktur samhljóða svo og tillaga stjórnar að breyttum árgjöldum fyrir næsta ár. Í rekstri klúbbsins gekk vel að auka tekjur, en þær jukust um rúmar 4  milljónir milli ára, eða um 6%, og voru tæpar 80  milljónir.  Sá tekjuauki var að stærstum hluta nýttur til að vinna að framförum á vellinum og í inniaðstöðu, sem mun nýtast vel á komandi árum.  Niðurstaðan af rekstri ársins fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um tæpar 7 millj. Þessi niðurstaða er í takt við áætlanir stjórnar, sem gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti í tekjum og  jákvæðari afkomu á næstu árum.

Tengt efni: Ársreikningur 2013

Stjórnarkjör

Sigmundur Ófeigsson var endurkjörinn formaður.  Aðrir í aðalstjórn verða Jón Steindór Árnason varaformaður, Guðlaug María Óskarsdóttir gjaldkeri, Ingi Torfi Sverrisson ritari og Örn Viðar Arnarson meðstjórnandi. Í varastjórn verða Eygló Birgisdóttir og Sigurður Skúli Eyjólfsson.

Viðurkenningar

Kylfingur GA 2013: Örvar Samúelsson

Kylfingur ársins þarf að hafa sýnt góðan árangur og framfarir á árinu – ásamt því að vera á meðal fremstu kylfinga landsins á hverjum tíma með tilliti til mótaraðarinnar og stórmóta á vegum Golfklúbbsins. Örvar Samúelsson er kylfingur ársins 2013

Þetta er í annað sinn sem Örvar hlýtur þennan tiltil áður var það 2010. Í vitnisburði kennara þá sagði að Örvar hefði alla burði til að vera í fremstu röð um ókomin ár sem hann hefur verið.

Örvar er Akureyrarmeistari 2013, er þetta í 4 sinn sem hann vinnur  meistaramót klúbbsins.  Árangur hans í sumar hefur verið mjög góður, hann hefur tekið þátt í flestum mótum á mótaröð GSÍ og verið þar meðal 10 efstu manna. Árangur Örvars á Íslandsmótinu var mjög góður en þar endaði hann í 12 sæti. Örvar var í keppnissveit GA, sem sigraði sína deild og fóru þeir upp um deild. Forgjöf Örvars lækkaði úr 1,7 niður í 0,7.

Háttvísisbikar GA 2013: Kjartan Atli Ísleifsson

Við hér í golfklúbbi Akureyrar getum verið stolt af okkar yngri iðkendum, þar eigum við breiðan hóp ungra fyrirmyndarkylfinga og valið því verið mjög erfitt þetta árið.

Sá kylfingur sem fyrir valinu varð að þessu sinni Kjartan Atli Ísleifsson hefur skipað sér sess með efnilegustu kylfingum landsins. Einnig er hann öðrum kylfingum góð fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar, kemur ávallt vel fyrir og stundar sínar æfingar af kappi.  Hann  hefur verið leiðbeinandi okkar yngstu kylfinga í sumar og staðið sig þar með príði.

Kjartan tók ekki þátt í mörgum mótum á mótaröðinni í sumar en stóð sig mjög vel á þeim mótum sem hann fór á.

Kjartan var í  3. sæti í Akureyrarmótinu í 1 fl. karla

Holumeistari GA 2013: Stefán Einar Sigmundsson

Viðurkenning var afhent fyrir holumeistara klúbbsins. Holumeistari GA 2013 var Stefán Einar Sigmundsson .

Fundarstjóri var Tryggvi Þór Gunnarsson og fundarritari Ingi Torfi Sverrisson.