Fréttir frá afreksnefnd

Mikið hefur verið um að vera hjá afreksnefnd frá því í janúar. Nefndin hefur sett fram markmið og leiðir sem miða að því að skapa jákvæðar aðstæður fyrir þá sem vilja ná betri árangri í íþróttinni sem við höfum öll svo gaman af.


Starfið hingað til

Hópurinn hefur komið saman á þrekæfingar tvisvar í viku þar sem þjálfari stýrir með "harðri" hendi. Æfingarnar hafa verið fjölbreyttar þar sem áhersla er lögð á allt í senn styrk, úthald og liðleika.  Mæting hefur verið vaxandi og er nefndin orðin býsna sátt við þann áhuga sem kylfingar í hópnum eru farnir að sýna.

Æfingar í Boganum hafa verið einu sinni í viku undir stjórn kennara GA.  Þar hafa stuttu höggin verið æfð í gríð og erg þar sem ímyndunaraflið hefur fengið að ráða ferðinni.  Þessar æfingar sem okkur bjóðast þarna eru mjög kærkomnar og skipta miklu máli fyrir undirbúning fyrir sumarið.  Í því sambandi er ástæða til að minna alla félaga GA á að opnir tímar er í Boganum á þriðjudögum kl. 21 og á fimmtudögum kl. 20.

Starfið framundan
Áfram verður haldið með þrekæfingar og æfingar í Boganum.  Þar fyrir utan hefjast æfingar í kjallara íþróttahallarinnar þegar hún verður opnuð. Nefndin er einnig með á prjónunum að bjóða upp á fyrirlestra sem miða að því að bæta þekkingu hópsins á ýmsum sviðum sem snerta íþróttina, s.s. um hugræna þáttinn, golfreglurnar og fleira.

Ennfremur er stefnt á æfingaferð til Akraness í vor, eða þegar tíðin leyfir.

Sett hefur verið fram stefna, leiðir og markmið í afreksstarfi GA, sem hægt er að nálgast hér á vefnum.