Strákarnir okkar í flokki 18 ára og yngri tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Sveitakeppni GSÍ á heimavelli í dag með 2-1 sigri á GK. Víðir Steinar og Stefán Einar héldu áfram góðu spili sínu í fjórmenning og sigruðu 4/2, frábært golf hjá strákunum. Það var mikil spenna þegar Tumi kom á 18.teig einni holu yfir, Tumi sló fínt högg inn á grín eftir að keppinautur hans hafði hitt boltann illa og farið out of bounds vinstra megin. Sigur Tuma var staðreynd og Íslandsmeistaratitilinn í höfn og brutust út mikil fagnaðarlæti hjá GA liðinu og þeim fjölmörgu áhorfendum sem voru á 18.holu. Frábært mót hjá strákunum öllum, töpuðu aðeins einu game-i allt mótið, fóru annars taplausir í gegnum þessar fjórar umferðir. Framtíðin er björt hér hjá okkur í GA.
Sveit GA/GHD/GÓ beið lægri hlut gegn GR 2-1 í leik um 5.sætið, Arnór Snær vann sinn leik 4/3, Fannar tapaði 2/1 og fjórmenningurinn með þá Aðalstein og Þorgeir 3/2. Flott mót hjá þessari sameiginlegu sveit og stóðu strákarnir sig mjög vel.
Sveit GA/GH tapaði leik sínum gegn Golklúbbnum Leyni 3-0 í dag, strákarnir geta tekið margt út úr þessu móti og fer það svo sannarlega í reynslubankann hjá þessum efnilegu kylfingum okkar.
Á Hellu spilaði sveit drengja 15 ára og yngri um 5.sætið á móti Nesklúbbnum og tapaðist sá leikur 2-1. Lárus Ingi og Gunnar Aðalgeir spiluðu saman í fjórmenning og unnu 2/1, Brimar Jörvi tapaði sínum tvímenning og Hákon Ingi þurfti að láta í minni pokann eftir 22 holur, frábær barátta og mátti ekki miklu muna að 5.sætið hefði verið okkar. Strákarnir enda því í 6.sæti sem er fínn árangur hjá þeim og klárlega eitthvað til að byggja á fyrir næsta ár.
Á Flúðum spilaði sameiginleg sveit GA og GÓ í flokki stelpna 15 ára og yngri á móti GK í dag. Þær gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þann leik 2-1, Andrea Ýr vann 8/7, Guðrún Fema 4/3 en fjórmenningurinn með þær Ólavíu og Söru tapaðist 3/2. Stelpurnar enda því í 2.sæti á Íslandsmótinu sem er frábær árangur, aðeins einn tapleikur í fyrsta leik á móti GKG.
Á Hellishólum spilaði öldungasveit kvenna hjá okkur í GA mikilvægan leik á móti GS um áframhaldandi sæti í efstu deild. Það má með sanni segja að þessi leikur hafi ekki verið fyrir hjartveika og fóru þrír leikir af fimm í bráðabana. Leikruinn tapaðist því miður 3-2 en Jakobína vann sinn 3/2 og fjórmenningurinn með þlr Unni Elvu og Eygló vannst 2/1. Halla Sif tapaði á 20. holu og Þórunn og Birgitta á 19. holu báðar. Gríðarlega svekkjandi en þær geta verið ánægðar með spilamennsku sína í síðustu tveimur leikjum mótsins og mátti litlu muna að þær hefðu haldið sér uppi.
Í heildina var þessi helgi frábær hjá sveitum GA, einn Íslandsmeistaratitill og 2.sæti í öðrum flokki. Framtíðin er björt fyrir GA og erum við gífurlega stolt af flottu kylfingunum sem kepptu um helgina og voru félaginu svo sannarlega til sóma.