Núna um helgina er Íslandsmótið í höggleik unglinga í gangi á Korpúlfsstaðarvelli í Reykjavík.
Okkar GA unglingar byrjuðu mótið svo sannarlega af miklum krafti og spiluðu frábært golf margir hverjir!
Kristján Benedikt, nýkrýndur Akureyrarmeistari, spilaði best allra á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari og leiðir sinn flokk, 15-16 ára, með fjórum höggum. Frábær fyrsti dagur hjá Kristjáni.
Í flokki 17-18 ára eru GA félagar áberandi en þar eru 6 unglingar að keppa frá okkur. Fannar Már kom inn á besta skorinu af þeim eða á 74 höggum og er í 2.-3. sæti, skammt á eftir honum eru þeir Víðir Steinar á 75 og Tumi Kúld á 76 höggum. Aron Elí og Aðalsteinn spiluðu á 84 höggum og Stefán Einar á 85 og er ljóst að þeir þrír eiga mikið inni og mæta tvíefldir til leiks í dag.
Í flokki 14 ára og yngri drengja eru 3 GA strákar, þeir Lárus Ingi, Gunnar Aðalgeir og Mikael Máni. Stóðu þeir sig allir vel í gær, Lárus er í 6.-9. sæti á 79 höggum, Gunnar spilaði á 83 og Mikael Máni á 84.
Í flokkur 14 ára og yngri stúlkna er Andrea Ýr í 2.sæti á 84 höggum, fjórum höggum á eftir 1.sætinu.
Hægt verður að fylgjast með öllum höggum af 6.holunni á Korpunni í dag hér og óskum við GA krökkunum góðs gengis í dag og á morgun.