Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi í Golfklúbbi Akureyrar lést þann 21. janúar síðastliðinn á 86. aldursári.
Gísli Bragi var félagi í GA í áratugi og var virkur í starfi klúbbsins alla tíð, sem meðlimur, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Gísli Bragi var formaður GA frá 1984-1986 og framkvæmdastjóri frá 1990-1995 og tók í störfum sínum fyrir GA þátt í mörgum af mestu framfararskrefum sem stigin hafa verið í sögu golfklúbbsins. Hann var iðinn golfari og sótti völlinn vel.
Gísli Bragi setti upp ásamt öðrum félögum minningarskilti um Golfvöllinn Nýrækt á Eyrarlandsholti síðastliðið sumar en þar hafði Golfklúbbur Akureyrar aðsetur á árunum 1945-1970 og vildi Gísli kynna söguna frá þeim tíma fyrir félagsmenn GA og aðra Akureyringa. Þá tók Gísli fyrstu skóflustunguna af nýju inniaðstöðu GA í september 2023 og var duglegur síðastliðinn vetur að koma með kruðerí fyrir sjálfboðaliða okkar sem hjálpuðu til við byggingu hússins.
Golfklúbbur Akureyrar syrgir fallinn félaga og vottar fjölskyldu og ástvinum dýpstu samúð.