Góður dagur hjá GA sveitunum

Tumi Kúld átti góðan dag og vann báðar viðureignir sínar
Tumi Kúld átti góðan dag og vann báðar viðureignir sínar

Stelpurnar okkar í annarri deildinni héldu áfram sigurgöngu sinni í gær en þær spiluðu fyrri leik sinn á móti Golfklúbbnum Esju og unnu þann leik sannfærandi 3-0. Í fjórmenningnum spiluðu þær Björk og Kara saman og unnu sína viðureign 4/3, í tvímenning unnu þær Bryndís og Andrea sannfærandi sigra 9/7 og 8/6. Lokaumferð riðilsins var nágrannaslagur á móti Golfklúbbi Fjallabyggðar og fóru stelpurnar okkar aftur með 3-0 sigur af hólmi. Lilja Maren og Kara Líf sigruðu fjórmenninginn 7/6 á meðan Bryndís kláraði sinn leik 6/5 og Andrea vann 3/2. 

Í dag spila þær hreinan úrslitaleik við Nesklúbbinn um hvaða lið fer upp í efstu deild að ári og hefst sá leikur klukkan 9:00. Lilja Maren og Kara Líf leika fjórmenning og Bryndís og Andrea tvímenning. Hægt er að fylgjast með stöðu mála hér.

Strákarnir okkar hófu leik gegn Golfklúbbi Suðurnesja og unnu þar sannfærandi sigur 4,5-0,5. Í fjórmenning gerðu Víðir og Lárus jafntefli í sínum leik á meðan Óskar Páll og Valur unnu sinn leik 1/0. Í tvímenning unnu okkar menn síðan alla leikina sína, Veigar sigraði 3/2, Tumi 3/1 og Örvar 1/0 og frábær sigur strákanna okkar í fyrsta leik. Næsti leikur var á móti Golfklúbbi Selfoss og byrjuðu þeir Víðir og Eyþór á sterkum 3/1 sigri og Óskar og Valur nældu í jafntefli eftir að hafa verið undir eftir 16 holur. Örvar tapaði sínum leik 3/2 og Veigar sínum 2/1 en Tumi Kúld kláraði lokaviðureignina 3/1 og tryggði gríðarlega mikilvægt jafntefli fyrir strákana okkar.

Í dag mæta þeir liði GR í lokaleik riðilsins en sveit GR hefur ekki enn tapað leik á mótinu, hafa unnið báðar viðureignir sínar 5-0 svo ljóst er að verkefnið verður erfitt en strákarnir okkar klárír í slaginn. Við hvetjum félagsmenn til að fjölmena á völlinn og sýna strákunum stuðning en eftir hádegi hefst síðan krossaspil og stefnir sveit GA klárlega á að komast í undanúrslitin. 
Hér má fylgjast með stöðu mála.