Stjórn GA hefur gengið frá ráðningu Brian Jensen, 33 ára Dana, sem golfkennara GA. Hann var valinn úr hópi 10 umsækjenda.
Brian hefur lokið menntun sem kallast PGA Class A Professional, auk þess að vera Certified Trackman Master (einn af 30 í heiminum). Hann hefur einnig þekkingu og reynslu í kylfusmíði og lagfæringum. Hann hefur undanfarin 8 ár unnið við að kenna kylfingum á öllum aldri og getustigum, en hluta af þeim tíma lagði hann sérstaka áherslu á kennslu barna, unglinga og afrekskylfinga. Hann lýsir sínum áherslum á eftirfarandi hátt:
"Ég hef mjög gaman að því að kenna golf. Ég legg mikla áherslu á einstaklingsmiðaða kennslu, því það er misjafnt hvaða aðferð hentar best til að hjálpa kylfingum að taka framförum og njóta þess enn meira að spila golf. Ég legg einnig áherslu á að hafa kennsluna eins einfalda og kostur er, en um leið hvetjandi".
Meðal fyrri starfa hans er fyrir golfklúbba í Silkeborg og Holsterbro, auk þess að kenna hópum kylfinga frá Skandinavíu golf á Spáni.
Brian hefur störf í janúar og tekur þá við af Ólafi Gylfasyni sem hefur verið golfkennari GA undanfarin þrjú ár. Um leið og Ólafi er þakkað samstarfið og óskað velfararnaðar, er Brian boðinn velkominn til starfa með væntingum um farsælt og árangursríkt samstarf.