Í dag er stór dagur hjá Golfklúbbi Akureyrar þar sem klúbburinn fagnar 80 ára afmæli sínu.
Það var 19 ágúst 1935 sem 27 menn hittust í Samkomuhúsinu Skjaldborg á Akureyri, í þeim tilgangi að stofna golfklúbb á Akureyri. Okkur sem í dag njótum góðs af framsýni þeirra og dugnaði verður óneitanlega hugsað til þeirra og það er ekki annað hægt en að fyllast aðdáun á baráttunni fyrir því að hefja golfíþróttina til vegs hér í bænum. Gunnar Schram var kosinn fyrsti formaður Golfklúbbs Akureyrar og var fyrsti golfvöllurinn 6 holur á Gleráreyrum.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag státar GA af einum glæsilegasta golfvelli landsins á Jaðri. Miklar breytingar hafa átt sér stað á vellinum á undanförnum árum og sér nú fyrir endan á þeim. Nú í sumar klárast framkvæmdir við 6 holu æfingavöll og á haustmánuðum verður hafist handa við að byggja upp æfingaskýli sem fengið hefur nafnið Klappir.
Mun GA því bjóða upp á frábæra aðstöðu til golfiðkunnar á Jaðri.
Við óskum öllum félagsmönnum GA kærlega til hamingju með daginn :)