Undirbúningur í fullum gangi fyrir Arctic Open mótið, sem verður sérlega veglegt í ár.
„Kvöldsólin, hitinn og næturkyrrðin minna mig á bestu stundirnar á Arctic Open“ segir Halla Sif Svavarsdóttir framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar þegar hún er spurð um stöðuna á golfvellinum að Jaðri þetta vorið. Undanfarna daga hefur einmuna blíða leikið við kylfinga á Akureyri og völlurinn að Jaðri sjaldan komið svo vel undan vetri sem nú. Alla daga, frá morgni og langt fram á kvöld, keppast norðlenskir kylfingar við að njóta veðurblíðunnar og lífsins á golfvellinum í sól og góðum félagsskap.
Golfvöllurinn að Jaðri er í frábæru ástandi og verður betri með hverjum deginum sem líður. Í vetur var unnið að breytingum á nokkrum holum vallarins, m.a. á 4. holu, sem af mörgum er talin fallegasta par þrír hola landsins. Þessar breytingar verður hægt að taka í notkun nokkru fyrr en ráð var fyrir gert vegna góða veðursins undanfarna daga. Völlurinn verður því í frábæru ástandi þegar kemur að Arctic Open en alla tíð hefur verið lagður mikill metnaður í að hafa völlinn í fullkomnu ástandi þegar mótið fer fram.
Arctic Open fer fram dagana 28. – 30 júní nk. í tuttugasta og sjötta sinn. Að þessu sinni er gert ráð fyrir fjölmörgum erlendum gestum, enda hefur markaðssetning mótsins erlendis verið efld verulega hin síðari ár.
Ein ástaða þess að mótið nýtur nú meiri athygli erlendis er samningur við Sun Mountain í Bandaríkjunum. Sun Mountain, sem er einn stærsti framleiðandi heims í golffatnaði og golfkerrum, er nú einn aðal styrktaraðili mótsins og auglýsir mótið í sínu markaðsstarfi. Einnig mun Sun Mountain gefa teiggjafir á mótinu og í ár er mjög veglegur fatnaður í teiggjöf. Þetta samstarf, ásamt því góða og mikilvæga samstarfi sem Arctic Open hefur átt við Icelandair mörg undanfarin ár, mun efla markaðssetningu mótsins og skapa því nýja stöðu, jafnt hér heima sem erlendis.
Nú þegar hafa um 100 keppendur skráð sig til leiks en hægt verður að taka við 170 til 180 keppendum.
Að venju hefst mótið um hádegi á fimmtudegi með opnunarhátið, léttum veitingum og golfleikjum. Kl. 16 er fyrri ráshópur, um 80 manns, ræstur út af öllum teigum og síðan er seinni ráshópur ræstur út kl. 21.30. Sami háttur er á föstudegi nema þá víxlast tímar, þeir sem fóru út kl. 16 á fimmtudegi fara út kl. 21.30 og öfugt. Á laugardagskvöld er hátíðarkvöldverður og verðlauna-afhending þar sem boðið er upp á frábæran mat úr hráefni frá bændum og matvælaframleiðendum á Eyjafjarðarsvæðinu. Vinningar á Arctic open hafa alltaf verið glæsilegir, golfpokar, kylfur og járn ásamt fataúttektum og flugmiðum. Helstu samstarfsaðilar mótsins eru Icelandair, Sun Mountain og Flugfélag Íslands en einnig koma að mótinu One Source Aerospace í Bandaríkjunum, Golfbúðin Hafnarfirði, NTC verslanirnar og Rolf Johansen.
„Miðað við skráninguna í dag þurfa golfarar að hafa samband sem fyrst ef þeir ætla að komast á mótið. Áhuginn er gríðarlega mikill og ekki síst vegna þeirra veglegu teiggjafa og verðlauna sem eru í boði“ segir Halla Sif framkvæmdastjóri GA í blíðunni fyrir norðan.
Allar nánari upplýsingar um Arctic Open veita G. Ómar Pétursson formaður Arctic Open nefndarinnar í síma 860 6700 og Halla Sif Svavarsdóttir framkvæmdastjóri GA í síma 896 6814.