Íslandsmótið í holukeppni fer fram á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 19.-21. júní.
Gríðarlega sterkur hópur keppenda hefur nú þegar skráð sig til leiks en skráningarfrestur rennur út á miðnætti í kvöld.
Íslandsmótið í holukeppni 2020 fer fram á Akureyri dagana 19.-21. júní 2020. Skráning stendur yfir en 32 karlar og 32 konur eru með keppnisrétt á þessu stórmóti á stigamótaröð GSÍ. Keppendur eru hvattir til þess að skrá sig sem allra fyrst en skráningarfrestur rennur út rétt fyrir miðnætti í kvöld, þriðjudaginn 16. júní 2020.
Það er ljóst að Íslandsmótið í holukeppni 2020 verður gríðarlega sterkt en nánast allir sterkustu kylfingar landsins hafa nú þegar boðað komu sína með skráningu í mótið. Má þar nefna atvinnukylfinga á borð við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, Valdísi Þóru Jónsdóttur. Saga Traustadóttir hefur titil að verrja og er hún skráð til leiks.
Í karlaflokki er ljóst að keppendahópurinn gríðarlegar sterkur. Atvinnukylfingar á borð við Axel Bóasson, Ólaf Björn Loftsson, Harald Franklín Magnús, Andra Þór Björnsson, Guðmund Ágúst Kristjánsson eru allir skráðir til leiks. Rúnar Arnórsson, ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni, er einnig skráður til leiks.
Smelltu hér fyrir stigalistann í holukeppni 2020.
Eins og áður segir eru 32 keppendur í hvorum flokki fyrir sig. Keppendum er raðað upp í fjögurra manna riðla. Þrír leikir eru í hverjum riðli og efstu kylfingarnir komast í 8-manna úrslit.
Saga Traustadóttir, GR og Rúnar Arnórsson, GK, fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni árið 2019.
Birgir Leifur Hafþórsson, GKG er sigursælasti keppandinn í karlaflokki en hann hefur fjórum sinnum hampað þessum titli. Í kvennaflokki hefur Ragnhildur Sigurðardóttir, GR sigrað oftast eða alls 7 sinnum.
Ríkjandi Íslandsmeistarar í holukeppni eru sjálfkrafa með keppnisrétt, ásamt þremur efstu íslensku kylfingunum á heimslista atvinnu -og áhugakylfinga 14 dögum áður en mótið hefst.
Það er ljóst að færri komast að en vilja í karlaflokkinn en stöðuna á skráningu má sjá í þessari frétt https://www.golf.is/skraningu-a-islandsmotid-i-holukeppni-lykur-i-kvold-19-21-juni-a-jadarsvelli/