Jaðarsvöllur opnaði í gær, 11.maí, fyrir GA félaga og gesti í einmuna blíðu. Opið er inn á allar sumarflatirnar á vellinum og segja má að afar langt sé síðan völlurinn hafi komið jafn vel undan vetri. Í fyrra var opnað inn á 14 holur þann 16.maí og árið þar á undan voru 16 holur opnaðar þann 19.maí. Veturinn var okkur hagstæður og var því hægt opna holur 10-18 þann 17. nóvember og voru þær opnar fram í desember mánuð. Svo var einnig opnað inn á 7 vetrargrín þann 28. febrúar fyrir GA félaga og er því notkun Jaðarsvallar alltaf að spanna lengra og lengra tímabil eða ríflega hálft árið.
Eins og komið hefur fram kom völlurinn vel undan vetri og er það helst vegna hagstæðs vetrar og góðri vinnu vallarstarfsmanna við eftirlit og umsjón flatanna. Á vordögum mættu vaskir sjálfboðaliðar og dúkalögðu flatirnar sem hafa gert flötunum gríðarlega gott, flatirnar eru því vel þéttar og iðagrænar. Næstu vikur verður svo sláttur lækkaður og flatirnar sandaður og þá eykst rennslið. Við erum spennt fyrir sumrinu og hlökkum til að bjóða félögum okkar og gestum víðs vegar að upp á Jaðarsvöll í sínum bestu klæðum sumarið 2023.
Ljóst er að rjómablíðan í gær og gæði vallarins trekktu að mikinn fjölda kylfinga en 199 kylfingar spiluðu völlinn í gær og fór hitinn upp í 18 gráður vel yfir daginn.