Nú um liðna helgi lauk Íslandsmóti eldri kylfinga í golfi hér á Jaðarsvelli en leikið var föstudag, laugardag og sunnudag. Rétt tæplega 140 keppendur mættu til leiks og spiluðu við toppaðstæður á vellinum sem hefur sjaldan litið betur út. Skorið var gott og ríkti almenn ánægja á meðal kylfinga með mótið.
Í flokki karla 65 ára og eldri var það Rúnar Svanholt frá GR sem sigraði á 78-84-80 eða 29 höggum yfir pari, rétt á eftir honum voru þeir Tryggvi Þór Tryggvason og Þorsteinn Geirharðsson á 33 höggum yfir pari, Tryggvi vann Þorstein í bráðabana um annað sætið.
Í flokki kvenna 65 ára og eldri var það Margrét Geirsdóttir frá GR sem sigraði á 88-84-87 eða 46 höggum yfir pari, í öðru sæti var Sigrún Margrét Ragnarsdóttir GK og í þriðja sæti Kristín H Pálsdóttir GK.
Í flokki kvenna 50 ára og eldri var það Þórdís Geirsdóttir GK sem sigraði á 77-75-76 eða 15 höggum yfir pari, Steinunn Sæmundsdóttir GR var í öðru sæti á 18 yfir pari og María Málfríður Guðnadóttir endaði í 3. sæti á 24 höggum yfir pari.
Það var mikil spenna í flokki 50 ára og eldri karla fyrir lokadaginn en fyrir hann leiddi Guðni Veigar GK á einu höggi yfir pari og skammt undan voru Jón Gunnar GA og Björgvin Þorsteinsson GA á 5 og 6 höggum yfir pari. Lokadaginn spilaði Jón Gunnar á pari vallarins og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með fjögurra högga forystu á Björgvin og Frans Pál í GK. Frans Páll sigraði svo Björgvin í bráðabana um annað sætið á 3. holu. Svo sannarlega frábær árangur hjá okkar GA félaga Jóni Gunnari en hann varð Akureyrarmeistari í flokki 50 ára og eldri helgina þar á undan og er því í fanta formi. Jón Gunnar hefur verið duglegur við æfingar og spil og hefur undanfarið verið í einkatímum hjá John Garner sem er sérfræðingur í stutta spilinu og hefur hann hjálpað nafna sínum mikið. Hægt er að bóka kennslu hjá þeim snilling upp á skrifstofu GA en hann er einn allra færasti golfþjálfari heims og því um að gera að nýta sér þjónustu hans á meðan hann er hér.
Við hjá GA erum gríðarlega stolt af Jóni Gunnari og óskum honum innilega til hamingju með frábæran árangur!
Þórdís Geirsdóttir sigurvegari kvenna í flokki 50 ára og eldri
Björgvin Þorsteinsson að pútta
Viddi Þorsteins púttar langt pútt
Ingi að reyna við fuglinn
Jón Gunnar slær inn á flöt
Jón Gunnar ánægður með púttið sitt