2. og 3. braut lokaðar að degi til út næstu viku.
Framkvæmdir hafa staðið yfir víða á Jaðarsvelli undanfarna daga. 2. og 3. braut verða lokaðar alla næstu viku vegna þeirra, en stefnt er að
því að hafa þær opnar eftir kl. 18 flesta daga, sem og um helgina. Á meðan lokun er í gildi er því beint til kylfinga að þeir
leiki 1. braut og fari þaðan yfir á 4. teig. Lækur hefur nú verið grafinn og mótaður gegnum 2. braut og voru bakkar hans tyrfðir í gær,
miðvikudag. Upptök hans eru við bílastæðin og æfingaflatirnar og mun hann renna meðfram og gegnum 3. braut og þaðan til austurs undir gamla veginn
sem nú hefur verið lagður af.
Á 3. braut er verið að ganga frá möninni meðfram vallarmörkunum. Bakkar lækjarins, sem grafinn hefur verið gegnum 3. braut, verða mótaðir
nú á allra næstu dögum. Þá verður hafist handa við lækkun vatnsborðsins í nýju tjörninni milli 2. og 3. brautar á
morgun, föstudag, er grafið verður fyrir yfirfallsröri þaðan og í lækinn. Samhliða þeirri vinnu verður farið í ýmsar minni
háttar aðgerðir til að þurrka brautina sem mest, fylla í dýpstu dældir o.s.frv. Stefnt er að því að ganga frá öllum
lækjarbökkum með tyrfingu. Sömu sögu er að segja af hluta tjarnarbakkans, en mest aflíðandi kaflar hans verða að öllum líkindum
ræktaðir upp með sáningu.