Það er mikið um að vera á Jaðri þessa dagana, nú er sól farin að hækka á lofti og hitastigið einnig.
Í gær var steypt miðjuplatan í Klöppum og tókst sú framkvæmd virkilega vel. Í næstu viku verður hægt að fara að slá upp fyrir efri hæðinni og gerum við okkur vonir um að sú vinna klárist um miðjan apríl. Sem fyrr þá stendur til að opna Klappir upp úr miðjum maí.
Framkvæmdir í kjallaranum á Jaðri ganga einnig mjög vel, Heimir pípari lagði hitann í gólfið í gær og í morgun voru Maggi Gísla og Júlli múrarar mættir og flotuðu gólfið, þannig að hægt verður að fara í það að loka gömlum hurðargötum og slá upp nýjum veggjum fljótlega.
Í gær var einnig farið af stað í það að blása af flötunum, spáin framundan er mjög góð og því fór Bigga af stað í það í gær að blása af öllum flötunum, sú vinna sem farið var i í janúar þegar klakinn var brotinn af flötunum virðist vera að skila okkur góðum árangri og líta flatirnar bara vel út. Hún finnst ekki þessi slæma lykt sem oft vill verða á þessum tíma og gefur það mjög góð fyrirheit. Klakinn er lítill á flestum stöðum og ætti að verða fljótur að fara.