Minningarskilti um Golfvöllinn Nýrækt á Eyrarlandsholti

Öflugur hópur GA félagamun afhjúpa minningarskilti um Golfvöllinn Nýrækt þar sem GA hafði aðsetur frá 1945-1970 á laugardaginn kemur kl.16:00. Skiltið mun vera á gömlu 8. flötinni við Mosateig og eru allir velkomnir sem vilja kynna sér sögu golfsins á Akureyri. 

Helgi Skúlason, augnlæknir (1893-1982) var mikill áhugamaður um golfíþróttina og var formaður GA í 9 ár. Það má segja að hann hafi verið mestur forgöngumaður um gerð golfvallarins við Þórunnarstræti en hann lánaði GA 55.000 kr. fyrir kaupum á svæðinu árið 1945, sem kallað var Nýrækt og var það síðan endurgreitt án verðbóta á 20 árum. Þetta land var síðan sett í makaskiptum fyrir Jaðar þannig að þáttur Helga í sögu golfsins hér á Akureyri er óumdeildur. 

Gísli Bragi Hjartarson, heiðursfélagi GA, mun segja nokkur orð og eru síðan gestir boðnir velkomnir í skálann á Jaðri í kaffi þar sem Gísli mun fara yfir söguágrip klúbbsins og segja frá nokkrum skemmtilegum sögum frá golfvellinum við Þórunnarstræti.